Löfven: Mjög erfitt en nauðsynlegt

Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar.
Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar. AFP

Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, var þungbúinn er hann ávarpaði sænsku þjóðina í ríkissjónvarpinu í kvöld. Boðskapur hans var sá sami og liðna daga: Aflýsið viðburðum, ekki safnast saman og haldið ykkur heima.

Löfven minnti á að 6.000 manns hafa látist í Svíþjóð af völdum kórónuveirunnar og ástandið væri alvarlegt. „Því vil ég biðja ykkur um nokkuð mjög erfitt, en nauðsynlegt,“ sagði Löfven. „Það sem við gerum nú mun hafa áhrif á hvernig jólahaldið getur orðið og eins hverjir verða enn með okkur um jólin. Þetta kann að hljóma harkalega, en þetta er nákvæmlega jafnharkalegt og raunveruleikinn er.“

Svíþjóð stendur frammi fyrir áskorun

Þrátt fyrir að ástandið sé slæmt reyndi Löfven að blása þjóðinni kjarki í brjóst og sagði að þeir sem bara sæju myrkrið skyldu reyna að hafa trú á getu samfélagsins til að standa af sér krísuna.

„Svíþjóð stendur frammi fyrir áskorun, en Svíþjóð mun takast að standa hana af sér. Heilbrigðisþjónustan virkar, þrátt fyrir allt. Hús og vegir eru í byggingu, þrátt fyrir allt. Börnin okkar fá menntun, þrátt fyrir allt. Við skulum taka ástandinu alvarlega, en við skulum gera það með festu og trú.“

Sögulegt ávarp

Sóttvarnareglur í Svíþjóð hafa ekki verið jafnharðar og víða annars staðar. Ýmis starfsemi er enn leyfð þótt stjórnvöld mælist eindregið til þess að fólk haldi sig heima. Nú á þriðjudag tekur átta manna samkomubann gildi í landinu, en það gildir þó eingöngu á tilteknum opinberum stöðum, svo sem íþótta- og menningarviðburðum, tónleikum og mótmælum.

Ekkert bann er við því að safnast saman á heimilum, en með ræðunni og orðum sínum síðustu daga hefur Löfven viljað leggja áherslu á hve alvarlegt ástandið er og hveja fólk til að halda sig heima.

Ávarpið þykir því til marks um alvarlega stöðu í landinu. Aðeins þrisvar áður hefur forsætisráðherra Svíþjóðar haldið sjónvarpsávarp utan hefðbundins jólaávarps. Síðast var það í mars, einnig vegna kórónuveirufaraldursins, en þar áður árið 2003 eftir að Anna Lindh utanríkisráðherra var myrt í Stokkhólmi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert