Bandamaður Trumps hvetur til uppgjafar

Chris Christie hlustar á ávarp Donalds Trumps í Hvíta húsinu.
Chris Christie hlustar á ávarp Donalds Trumps í Hvíta húsinu. AFP

Einn af helstu bandamönnum Donalds Trumps Bandaríkjaforseta hefur hvatt hann til að láta af baráttu sinni um breytingu á niðurstöðum forsetakosninganna þar vestra. Bandamaðurinn, Chris Christie fyrrum ríkisstjóri New Jersey, sagði í þokkabót að lögfræðingateymi forsetans væri „þjóðinni til skammar.“ BBC greinir frá.

Trump hefur neitað að viðurkenna úrslit kosninganna og hefur sett fram órökstuddar fullyrðingar um útbreitt kosningasvindl. Margir repúblikanar hafa stutt viðleitni hans en alls ekki allir. 

Á laugardag hafnaði dómari lögsókn framboðs Trumps í Pennsylvaníu sem miðaði að því að ógilda milljónir atkvæða í ríkinu sem hann og Joe Biden, verðandi Bandaríkjaforseti, höfðu slegist um. Í úrskurði sínum sagði dómarinn Matthew Brann að dómstólnum hefðu verið kynnt „langsótt lögfræðileg rök án staðreynda og tilgátukenndar ásakanir.“

Geta ekki haldið svindli fram áfram

„Hreint út sagt hefur háttsemi lögfræðiteymis forsetans verið þjóðinni til skammar,“ sagði Christie í samtali við ABC í gærkvöldi. 

Hann sagði að teymi Trumps ræddi oft um kosningasvindl utan réttarsalar „en þegar þau fara inn í réttarsalinn flytja þau ekki rök með svikum eða halda fram svikum.“

„Ég hef verið stuðningsmaður forsetans og ég kaus hann tvisvar en kosningar hafa afleiðingar í för með sér og við getum ekki haldið því fram áfram að eitthvað hafi gerst sem gerðist ekki,“ bætti Christie við. 

Hann var fyrsti ríkisstjórinn sem studdi Trump sem forsetaframbjóðanda repúblikana fyrir forsetakosningarnar árið 2016. Þá aðstoðaði hann Trump við að undirbúa sig fyrir kappræður við Biden fyrr á árinu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka