Bandamaður Trumps hvetur til uppgjafar

Chris Christie hlustar á ávarp Donalds Trumps í Hvíta húsinu.
Chris Christie hlustar á ávarp Donalds Trumps í Hvíta húsinu. AFP

Einn af helstu banda­mönn­um Don­alds Trumps Banda­ríkja­for­seta hef­ur hvatt hann til að láta af bar­áttu sinni um breyt­ingu á niður­stöðum for­seta­kosn­ing­anna þar vestra. Bandamaður­inn, Chris Christie fyrr­um rík­is­stjóri New Jers­ey, sagði í þokka­bót að lög­fræðingat­eymi for­set­ans væri „þjóðinni til skamm­ar.“ BBC grein­ir frá.

Trump hef­ur neitað að viður­kenna úr­slit kosn­ing­anna og hef­ur sett fram órök­studd­ar full­yrðing­ar um út­breitt kosn­inga­s­vindl. Marg­ir re­públi­kan­ar hafa stutt viðleitni hans en alls ekki all­ir. 

Á laug­ar­dag hafnaði dóm­ari lög­sókn fram­boðs Trumps í Penn­sylvan­íu sem miðaði að því að ógilda millj­ón­ir at­kvæða í rík­inu sem hann og Joe Biden, verðandi Banda­ríkja­for­seti, höfðu sleg­ist um. Í úr­sk­urði sín­um sagði dóm­ar­inn Matt­hew Brann að dóm­stóln­um hefðu verið kynnt „lang­sótt lög­fræðileg rök án staðreynda og til­gátu­kennd­ar ásak­an­ir.“

Geta ekki haldið svindli fram áfram

„Hreint út sagt hef­ur hátt­semi lög­fræðiteym­is for­set­ans verið þjóðinni til skamm­ar,“ sagði Christie í sam­tali við ABC í gær­kvöldi. 

Hann sagði að teymi Trumps ræddi oft um kosn­inga­s­vindl utan rétt­ar­sal­ar „en þegar þau fara inn í rétt­ar­sal­inn flytja þau ekki rök með svik­um eða halda fram svik­um.“

„Ég hef verið stuðnings­maður for­set­ans og ég kaus hann tvisvar en kosn­ing­ar hafa af­leiðing­ar í för með sér og við get­um ekki haldið því fram áfram að eitt­hvað hafi gerst sem gerðist ekki,“ bætti Christie við. 

Hann var fyrsti rík­is­stjór­inn sem studdi Trump sem for­setafram­bjóðanda re­públi­kana fyr­ir for­seta­kosn­ing­arn­ar árið 2016. Þá aðstoðaði hann Trump við að und­ir­búa sig fyr­ir kapp­ræður við Biden fyrr á ár­inu. 

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert
Loka