Joe Biden, verðandi forseti Bandaríkjanna, er byrjaður að tilnefna ráðherra í ríkisstjórn sína. Teymi Bidens tilkynnti nokkrar tilnefningar í gærkvöldi eftir að bandaríska stjórnvaldið sem fer með mál sem varða innsetningu nýs Bandaríkjaforseta tilkynnti Biden að formlegt valdaskiptaferli gæti hafist.
Donald Trump sitjandi Bandaríkjaforseti hefur nú samþykkt að valdaskiptin þurfi að hefjast. Hann ætlar sér samt sem áður að halda áfram að láta reyna á lögmæti kosninganna.
Hér má lesa um þau sem voru tilnefnd.
Biden tilnefndi bandamann sinn til langs tíma, Anthony Blinken, til embættis utanríkisráðherra. Hann var aðstoðarutanríkisráðherra og aðstoðaröryggisráðgjafi undir stjórn Baracks Obama en þá var Biden varaforseti.
Þá tilnefndi Biden Avril Haines sem yfirmann njósnamála en ef hún tekur við embætti verður hún fyrsta konan sem sinnir þeiri stöðu. Hún er fyrrverandi staðgengill forstjóra leyniþjónustu Bandaríkjanna (CIA) og þjóðaröryggisráðgjafi.
Alejandro Mayorkas var tilnefndur af Biden til að sinna embætti þjóðaröryggisráðherra. Hann sinnti áður starfi staðgengils þjóðaröryggisráðherra þegar Barack Obama sat á forsetastóli.
Jake Sullivan var tilnefndur þjóðaröryggisráðgjafi Hvíta hússins. Hann var þjóðaröryggisráðgjafi Bidens á öðru kjörtímabili Obama en þá var Biden varaforseti.
Diplómatinn Linda Thomas-Greenfield var tilnefnd sem sendiherra Bandaríkjanna við Sameinuðu þjóðirnar. Hún starfaði einnig innan stjórnar Obama og var aðstoðarráðherra frá árinu 2013 til ársins 2017.
John Kerry, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, mun taka við sérstöku embætti umhverfiserindreka forsetans.
Þá hafa fregnir af því að Janet Yellen verði fjármálaráðherra í stjórn Bidens ekki verið staðfestar en BBC sagði frá því í nótt að heimildir fréttastofunnar hermdu að hún tæki við embættinu. Ef hún tekur við stöðunni verður hún fyrsta konan sem tekur við því embætti.
Í yfirlýsingu í gærkvöldi sagði Biden: „Ég þarf teymi sem er tilbúið að hjálpa mér að endurheimta sæti Ameríku við stjórn borðsins frá fyrsta degi, leiða heiminn til að mæta stærstu áskorunum sem hann hefur mætt og efla öryggi okkar, velmegun og gildi. Þetta er kjarni teymisins.“
Sumar af stöðunum þarfnast staðfestingar öldungadeildar Bandaríkjaþings.