„Bandaríkin snúin aftur“

Joe Biden verðandi Bandaríkjaforseti kynnir nánustu samstarfsmenn sína í gær …
Joe Biden verðandi Bandaríkjaforseti kynnir nánustu samstarfsmenn sína í gær á blaðamannafundi í Wilmington í Delaware-ríki. AFP

Joe Biden, verðandi Bandaríkjaforseti sagði í ávarpi í gærkvöldi í heimabæ sínum, Wilmington, að Bandaríkin væru snúin aftur inn á vettvang alþjóðamála. Kynnti hann þar val sitt á helstu ráðherrum ríkisstjórnar hans, en þar þykir fara sama blanda af gamalli og góðri reynslu og krafti og þekkingu þeirra yngri.

Umræddir ráðherrar taka sæti í þjóðaröryggisráðinu og utanríkisstefnusveit Bidens, svo sem utanríkisráðherrann, þjóðaröryggisráðgjafi forsetans, innanlandsöryggisráðherrann, yfirmaður leyniþjónustunnar, sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum og loftslagsmálafulltrúann.

Forystuhlutverkið endurreist

„Þessir opinberu þjónar munu endurreisa forystuhlutverk Bandaríkjanna á sviði alþjóðamála og siðgæðishlutverk,“ sagði Biden.

Hann bætti við að eftir að hann sver eið sem forseti Bandaríkjanna 20. janúar og Donald Trump hverfur úr Hvíta húsinu munu Bandaríkin „aftur setjast við efri borðendann reiðubúin að takast á við fjandmenn okkar og hrekja ekki bandamönnum okkar frá því.

„Þessi sveit er reiðubúin að vera í fylkingarbrjósti, ekki hverfa úr forystu,“ sagði Biden og þótti með orðum sínum sneiða að Donald Trump fyrir að vilja vera einn á báti með svonefndri „Ameríka fyrst“ stefnu sinni.

Hafnar að játa sig sigraðan

Biden segir samstarf sinna fulltrúa og starfsmanna Hvíta hússins vegna valdaskiptanna í janúar hafa verið „einlægt“.

„Hingað til hefur ekkert bólað á eftirsjá, og ég á ekki von á slíku,“ sagði Biden við sjónvarpsstöðina NBC. Trump fékkst loks til þess á mánudag að hleypa valdaskiptaferlinu af stað, um þremur vikum eftir kosningar sem hann freistaði að fá ógildar.

Hafnar Trump því enn að játa sig sigraðan og heldur fast við að brögð hefðu verið í tafli. Kosningastjórnir einstakra ríkja hafa vísað staðhæfingum Trumps á bug og rúmlega dómsmál sem hann höfðaði eftir kjördag hefur verið vísað frá eða hafnað.

Parísarsamkomulagið dygði ekki

John Kerry, sem verður erindreki Bandaríkjastjórnar í loftslagsmálum, sagði í gær, að Parísarsamkomulagið frá 2015 myndi ekki duga til að stöðva hlýnun lofthjúpsins.

Kerry er fyrsti loftslagsfulltrúi landsins og í ræðu eftir skipanina sagði hann að meira þyrfti til ef draga skyldi úr hlýnuninni.

„Það er rétt af þér að gerast aftur aðili að Parísarsamkomulaginu,“ sagði hann við Biden og hét því að hlutur Bandaríkjanna í rimmunni við loftslagsbreytingar yrði stór. „Á hnattráðstefnunni sem fram fer í Glagow eftir ár verða þjóðirnar allar að hækka metnaðinn saman, ellegar mistakast saman. Brestur er ekki valkostur í þeim efnum,“ sagði Kerry.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert