„Búið ykkur undir nýja bylgju“

AFP

Bandaríkin ættu að búa sig undir bylgju ofan á bylgju varar sóttvarnalæknir Bandaríkjanna, Anthony Fauci, samlanda sína við á sama tíma og milljónir ferðalanga eru að snúa aftur til síns heima eftir þakkargjörðarhátíðina.

Bandaríkin eru það land í heimi sem er með flest dauðsföll af völdum kórónuveirunnar eða 266.831 á sama tíma og misvísandi upplýsingar koma frá stjórnvöldum um viðbrögð við veirunni. Hvort eigi að nota grímu, ferðast eða hættuna sem fylgir Covid-19.

Í viðtali við CNN í gærkvöldi sagði Fauci að það væri nánast öruggt að ný bylgja væri væntanleg vegna þess hve margir fóru í ferðalög þrátt fyrir að mælt var gegn þeim. Ekki hefur verið jafn mikil örtröð á flugvöllum í Bandaríkjunum og var í kringum þakkargjörðarhátíðina síðan faraldurinn braust fyrst út í ársbyrjun. 

Við getum átt von á aukingu á aukningu eftir tvær eða þrjár vikur, sagði Fauci. „Við viljum ekki hræða fólk en þetta er raunveruleikinn.“

AFP

Þróunin er ógnvænleg segir Fauci og fleiri sérfræðingar á heilbrigðissviði taka undir það með honum. De­borah Birx, helsti ráðgjafi Hvíta húss­ins í Covid-19, segir að eftir langa helgi í lok maí hafi orðið greinileg aukning nýrra smita og nú megi búast við mun meiri aukningu, jafnvel margfalt meiri. „Við höfum gríðarlegar áhyggjur,“ segir hún í viðtali við CBS. 

Landlæknir Bandaríkjanna, Jerome Adams, tekur í svipaðan streng. „Ég vil vera heiðarlegur við bandarísku þjóðina. Ástandið mun versna á næstu vikum,“ segir Adams í viðtali við Fox News. 

Síðasta sólarhringinn voru staðfest rúmlega 140 þúsund ný smit í Bandaríkjunum og eru þau því alls orðin tæplega 13,4 milljónir talsins. Um 20% allra þeirra sem eru inniliggjandi á sjúkrahúsum Bandaríkjanna eru með Covid-19.

Um helgina greindi borgarstjórinn í New York, Bill de Blasio, frá því að 7. desember fengju grunnskólanemendur að mæta að nýju í skólann en aðrar breytingar á sóttvarnareglum eru ekki í vændum þar strax. 

AFP

Greint var frá því í bandarískum fjölmiðlum um helgina að fyrstu skammtarnir af bóluefnum við Covid-19 hefðu borist til landsins, bæði framleitt af Pfizer og Moderna. 

Bóluefni Pfizer var flutt með fraktflugi en fastlega er gert ráð fyrir að neyðarleyfið fyrir dreifingu þess verði gefið út 10. desember. Bæði bóluefnin hafa gefið góða raun í klínískum rannsóknum og virknin um 95%. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert