Óvenjuleg röð lottótalna sem dregnar voru út í suðurafríska lottóinu í gærkvöldi hefur vakið furðu og ásakanir um svindl, eftir að tuttugu miðahafar reyndust hafa allar tölur réttar.
Upp komu nefnilega tölurnar 5, 6, 7, 8 og 9. Og bónustalan, hún var númer 10.
Hver og einn hinna tuttugu fær í sinn hlut 5,7 milljónir randa, eða sem nemur tæplega 48 milljónum króna.
Að auki fá 79 miðahafar til viðbótar 6.283 rönd hver, eða rúmlega 52 þúsund krónur, fyrir að giska á réttar tölur án bónustölunnar.
„Hamingjuóskir til sigurvegaranna tuttugu í lottóinu,“ tísti lottóið seint í gærkvöldi.
Congratulations to 20 new multimillionaires who each won over R5 million on the PowerBall jackpot! 5, 6, 7, 8, 9, 10 🙌 🤑 What will your winning numbers be? Check your tickets now to see if you’re a winner #FestiveYamaMillions pic.twitter.com/7DYpDjTL4R
— #PhandaPushaPlay (@sa_lottery) December 2, 2020
Tíðindunum fylgdu ásakanir um að brögð væru í tafli. Hafa einhverjir kallað eftir því að hafin verði rannsókn álíka þeirri sem þegar er í gangi og varðar meinta spillingu fyrrverandi forsetans Jacobs Zuma í embætti.
Lottónefnd landsins, sem sér um regluverk leiksins, segir talnaröðina fordæmalausa og hefur heitið því að málið verði kannað ofan í kjölinn.