„Stórkostlegar fréttir“

AFP

Forsætisráðherra Bretlands, Boris Johnson, segir samþykki lyfjaeftirlitsins um að heimila notkun bóluefnis Pfizer og BioNTec stórkostlegar fréttir. „Það er vörn bóluefnis sem mun að lokum veita okkur eðlilegt líf að nýju og koma hagkerfinu í gang að nýju,“ sagði Johnson eftir að lyfjaeftirlit Bretlands veitti bráðaleyfi fyrir notkun lyfsins í landinu í morgun.

Þar með urðu Bretar fyrsta ríkið til að heimila almenna notkun bóluefnis við Covid-19. Johnson biður íbúa landsins um að gæta varúðar en í dag lýkur fjögurra vikna lokunartímabili á Englandi. 

Matt Hancock heilbrigðisráðherra segir að byrjað verði á að bólusetna íbúa á hjúkrunarheimilum og starfsfólk í heilbrigðis- og umönnunargeiranum. Í næstu viku verður væntanlega byrjað að bólusetja og í upphafi verða 800 þúsund bóluefnisskammtar í boði en fara í milljónir fyrir árslok. 

„Hjálpin er á leiðinni,“ sagði Hancock í viðtali við BBC í morgun. „Við sjáum dagrenningu í fjarska en við verðum að komast í gegnum morguninn,“ bætti Hancock við og ítrekaði, líkt og Johnson, að fólk yrði að halda áfram að framfylgja sóttvarnareglum.

Landlæknir Englands, Chris Whitty, fagnaði einnig fréttunum í morgun en biður fólk um að gæta að sér næstu mánuði. Ekki verði búið að bólusetja alla þá sem eru í viðkvæmri stöðu fyrr en í vor. Ekki sé hægt að draga úr viðbúnaði fyrr en þá. 

Kórónuveiran hefur dregið 1,5 milljónir til dauða frá því veiran greindist fyrst í kínversku borginni Wuhan fyrir ári síðan. Að minnsta kosti 63 milljónir smita hafa verið staðfest síðan þá. 

Forstjóri Pfizer, Albert Bourla, segir að leyfið frá MHRA, Medicines and Healthcare products Regulatory Agency, sé söguleg stund í baráttunni við Covid-19. Von er á að bráðaleyfi verði veitt víðar á næstu dögum og vikum. 

Jafnframt er stutt í að veitt verði leyfi fyrir bóluefnum sem Moderna og AstraZeneca í samstarfi við Oxford háskóla verði veitt í Bretlandi og víðar. Vegna þess mikla kulda sem geyma þarf bóluefnið frá Pfizer-BioNTech er ákveðin áskorun en það þarf að vera við 70 gráðu frost. Sem þýðir að útvega þarf sérstaka frystiskápa. „Það er ekki auðvelt en við erum með aðgerðaráætlun í gangi,“ segir Hancock.

Um 40% þeirra sem hafa dáið úr Covid-19 í Bandaríkjunum eru starfsmenn og íbúar hjúkrunarheimila.  

Bóluefni Pfizer og BioNTech byggir á því að sprauta RNA byggðu á erfðaefni veirunnar inn í fólk en veiran sem veldur Covid-19 er með RNA sem erfðaefni. Líkaminn framleiðir tiltekin prótín veirunnar, sem dugar til að vekja ónæmiskerfið. Það virðist veita vörn í allt að 95% einstaklinga yfir 65 ára aldri.  Erfðaefni okkar er á DNA formi, en veirunnar á RNA formi. Hvorki við né veiran búum yfir ensímum til að afrita DNA frá RNA og því algerlega útilokað að erfðefnið innlimist í DNA þess bólusetta og erfðabreyti viðkomandi að því er segir í svari á Vísindavef Háskóla Íslands nýverið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert