Verðandi forseti Bandaríkjanna, Joe Biden, segir að hann ætli að biðla til bandarísku þjóðarinnar um að bera grímur fyrstu 100 daga hans í embætti í þeirri von að hægt verði að stöðva útbreiðslu kórónuveirunnar.
Þetta kom fram í viðtali við Biden á CNN. Hann segist telja að ef allir Bandaríkjamenn færu eftir þessu hefði hann trú á því að Covid-19-tilfellum myndi fækka til muna. Hann ætlar að fyrirskipa grímuskyldu í öllum opinberum byggingum eftir að hann tekur við embætti forseta 20. janúar. Ekkert ríki heims hefur farið jafn illa út úr faraldrinum, 14,1 milljón smita og af þeim hafa 276 þúsund látist af völdum Covid-19.
Sérfræðingar í stjórnskipunarrétti segja að forseti Bandaríkjanna hafi ekki heimild til þess samkvæmt lögum að fyrirskipa Bandaríkjamönnum að bera grímur en Biden segir að hann og varaforseti hans, Kamala Harris, muni setja fordæmi með því að hylja andlit sitt.
Valdsvið forseta nær yfir opinberar byggingar og Biden ætlar að nýta sér það með því að fyrirskipa grímunotkun en annars staðar verða tilmæli til fólks um að bera grímur.