Þúsundir mótmælenda kröfðust afsagnar Alexanders Lúkasjenkós forseta Hvíta-Rússlands í höfuðborg landsins Minsk í dag. Mótmælin hafa verið vikuleg, en gríðarleg óánægja hefur verið í landinu eftir meint kosningasvik forsetans.
Kosningarnar voru haldnar snemma í ágústmánuði og ekkert lát virðist á mótmælunum. Í dag voru ríflega 100 manns handteknir af lögreglu í mótmælum þar sem þess var krafist að forsetinn færi frá völdum hið snarasta.
Lúkasjenkó hefur reynt að nota lögregluna til að tvístra mótmælendum, en afar illa hefur gengið að lægja öldurnar í landinu. Hann hefur verið við völd í landinu í um 26 ár. Hefur hann sakað vesturlönd um að standa fyrir mótmælunum.
Herbifreiðar voru á götum Minsk í dag auk þess sem fjöldi óeinkennisklæddra hermanna handtók fólk sem tók þátt í mótmælunum. Myndir og myndbönd af atvikunum hafa birst á samfélagsmiðlum í dag.