Bandaríski flugmaðurinn Chuck Yeager, sem fyrstur manna flaug flugvél gegnum hljóðmúrinn, er látinn, 97 ára að aldri.
Yeager var orrustuflugmaður í síðari heimsstyrjöldinni og fór í árásarferðir frá Englandi. Í mars 1944 var flugvél hans skotin niður handan víglínunnar. Með hjálp frönsku andspyrnuhreyfingarinnar tókst honum að komast aftur til Englands eftir að hafa meðal annars gengið yfir Pýreneafjöll.
Eftir að stríðinu lauk gerðist Yeager tilraunaflugmaður í Bandaríkjaher. Árið 1947 rauf hann hljóðmúrinn í tilraunaflugvél, sem nefnd var Bell X-1 en niðurstöður þeirra tilrauna voru grundvöllur geimferðaáætlunar Bandaríkjanna. Flugvélin var flutt upp í 13,7 km hæð með B-29 sprengjuflugvél og síðan sleppt þar og Yeager náði síðan hljóðhraða, 1.130 km á klukkustund.
Félagi Yeagers lýsti X-1-vélinni þannig, að hún væri byssukúla með vængi. Flugvélin, sem nefnd var Glamourous Glennis til heiðurs fyrstu eiginkonu Yeagers, er nú til sýnis í Flug- og geimferðasafninu í Washington.
„Þetta opnaði geiminn, stjörnustríðið, gervitungl,“ sagði Yeager í viðtali við AFP árið 2007.
Yeager og starf hans voru áberandi í kvikmyndinni Right Stuff, sem gerð var árið 1983, byggð á samnefndri bók Tom Wolfes. Sam Shepard lék Yeager í myndinni.