Mæla gegn skimun á landamærum

Ferðalangur í faraldri. „Meirihluti tilfella verður í nærumhverfi fólks,“ segir …
Ferðalangur í faraldri. „Meirihluti tilfella verður í nærumhverfi fólks,“ segir í minnisblaðinu. AFP

Sóttvarnastofnun Evrópu hvetur ríkisstjórnir í álfunni til að falla frá skyldu til skimunar og sóttkvíar fyrir farþega sem ferðast með flugi. Fullyrt er að slíkar aðgerðir séu ólíklegar til að draga úr útbreiðslu veirunnar í samfélögum þar sem hún er nú þegar útbreidd.

Í minnisblaði frá stofnuninni og Flugöryggisstofnun Evrópu er kallað eftir því að fallið verði frá takmörkunum á flugsamgöngum og bent á að lítil hætta stafi af ferðalöngum þar sem veiran hefur þegar náð fótfestu.

Geti tafið útbreiðslu til skemmri tíma

„Skimanir við komu, sóttkví og lokanir á landamærum fyrir ferðalanga sem fara á milli landa eru ólíkleg til að koma í veg fyrir að SARS-CoV-2 komi í samfélög, þó að slíkt geti tafið það til skemmri tíma,“ segir í minnisblaðinu, en fjallað er um málið í breska dagblaðinu Telegraph.

„Meirihluti tilfella verður í nærumhverfi fólks,“ segir áfram í minnisblaðinu. „Í flestum löndum þar sem veiran er orðin útbreidd hafa utanaðkomandi tilfelli hverfandi áhrif á útbreiðslu.“

Ekki er mælt með skimun ferðalanga með flugi í leiðbeiningum minnisblaðsins, sérstaklega þar sem heilbrigðisþjónusta er af skornum skammti. Slíkt geti dregið úr getu nærheilbrigðisþjónustu og getu greininga á tilraunastofum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert