Verðandi forseti Bandaríkjanna, Joe Biden, hefur valið Lloyd Austin, fyrrverandi hershöfðingja, í embætti varnarmálaráðherra.
Austin verður þar fyrsti svarti einstaklingurinn til þess að gegna embættinu í sögu Bandaríkjanna. Austin, sem er 67 ára er kominn á eftirlaun frá hernum og gegndi starfi hershöfðingja síðustu árin í starfi en hann barðist bæði í Írak og Afganistan. Austin hafði betur gegn Michele Flournoy í baráttunni um embættið að sögn AFP-fréttastofunnar en AFP vísar í sinni frétt í heimildir CNN, Politico og New York Times. Formlega verður tilkynnt um valið á föstudag. Öldungadeildin þarf síðan að staðfesta ákvörðun forsetans og veita þarf sérstaka heimild þar sem alríkislög kveða á um að herforingjar þurfi að bíða sjö ár eftir að þeir láta af störfum áður en þeir geta tekið við embætti varnarmálaráðherra. Lögin byggja á því sjónarmiði að aðeins almennir borgarar eigi að gegna embætti varnarmálaráðherra.
Í tvígang hefur heimildin verið veitt, síðast árið 2017 er Jim Mattis var tilnefndur sem fyrsti varnarmálaráðherra Donalds Trumps. Því var mótmælt harðlega í öldungadeildinni og nokkrir þingmenn sögðu að heimildin yrði ekki veitt aftur.
Austin gegndi herþjónustu í fjóra áratugi. Hann útskrifaðist frá West Point Military Academy og tók að sér margvísleg verkefni innan hersins, allt frá því að leiða hersveitir í að stýra flutningahópum og annast nýliða. Hann var foringi þriðju herdeildar sem fór frá Kúveit inn í Bagdad árið 2003 er Bandaríkin gerðu innrás í Írak. Frá 2003 til 2005 var hann herforingi í Afganistan og árið 2010 var hann herforingi Bandaríkjahers í Írak. Tveimur árum síðar var hann gerður að yfirherforingja yfir öllum herafla landsins í Mið-Austurlöndum og Afganistan. Það þýddi að hann stýrði baráttunni gegn vígasveitum Ríkis íslams í Írak og Sýrlandi. Á þeim tíma var Biden varaforseti Bandaríkjanna.