Ríkari löndin hamstra bóluefni

AFP

Ríkari lönd heimsins hamstra bóluefni gegn Covid-19 og fólk sem býr í fátækum löndum gæti misst af tækifæri til að láta bólusetja sig, samkvæmt Félagi fólks um bólusetningar.

Félagið segir að tæp 70 fátæk lönd muni einungis geta bólusett tíu prósent landsmanna þrátt fyrir að Oxford- og AstraZeneca-framleiðendur heiti því að 64% af bóluefni fari til fólks í þróunarlöndum.

Fram kemur í frétt BBC að reynt verði að tryggja bóluefni fyrir alla sem það kjósa.

CO­VAX-sam­starfið hefur tryggt sér 700 milljónir skammta af bóluefni en ætlunin er að dreifa því til 92 þróunarríkja sem hafa skráð sig. Ætlunin er að tryggja jafna út­deil­ingu bólu­efn­is meðal fá­tækra ríkja heims­ins.

Þrátt fyrir það telur Félag fólks um bólusetningar að gera þurfi meira til að tryggja dreifingu bóluefnis í fátækustu ríkjunum. 

Samkvæmt félaginu hafa sum ríkari lönd tryggt sér það mikinn aðgang að bóluefni að hægt væri að bólusetja alla íbúa þrisvar sinnum. Kanada hefur gengið lengra, en hægt væri að bólusetja alla íbúa landsins fimm sinnum.

„Allir eiga rétt á bóluefni, óháð ríkidæmi,“ segir í yfirlýsingu bresku hjálparsamtakanna Oxfam.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert