Donald Trump húðskammaði Hæstarétt Bandaríkjanna á Twitter eftir að kæru Texasríkis vegna forsetakosninganna vestanhafs var vísað frá fyrir helgi.
„Hæstiréttur hefur brugðist okkur. Engin viska! Ekkert hugrekki!“ skrifaði Trump meðal annars á Twitter. Frávísunin virðist þýða að baráttu Trumps til að fá úrslitum forsetakosninganna hnekkt sé lokið en hann segir hana rétt að byrja.
Stjórnvöld í Texas lögðu fram kröfu á þriðjudag um að hæstiréttur ógilti úrslitin í fjórum ríkjum; Georgíu, Michigan, Pennsylvaníu og Wisconsin.
Málið var sótt af Texas-ríki og stutt af ríkissaksóknurum 18 ríkja og 106 þingmönnum repúblikana.
„Hæstiréttur hafði NÚLL áhuga á málsatvikum í mestu kosningasvikum sem nokkurn tímann hafa verið framin í Bandaríkjunum,“ skrifaði Trump enn fremur á Twitter.