Bretar færa sig á hæsta stig takmarkana

Matt Hancock er heilbrigðisráðherra Bretlands.
Matt Hancock er heilbrigðisráðherra Bretlands. AFP

Lundúnir og fleiri staðir á suðausturhluta Englands munu færast á hæsta stig takmarkana vegna útbreiðslu kórónuveirunnar frá miðnætti á miðvikudag. Þetta tjáði Matt Hancock, heilbrigðisráðherra Bretlands, þingmönnum í dag. BBC greinir frá. 

Skrefið mun gera þúsundum kráa, kaffihúsa og veitingastaða í höfuðborginni skylt að loka, nema hvað varðar sóttan og heimsendan mat. 

Á þessu þriðja stigi aðgerða (e. tier 3) má fólk ekki hittast innandyra, í einkagörðum eða á flestum opnum svæðum utandyra, nema það búi saman eða sé í nánasta samskiptahring hvers annars.

Ákvörðunin verður endurskoðuð á Þorláksmessu, 23. desember næstkomandi. 

Sex manna regla

Þessar hertu takmarkanir munu líklega þýða að áhorfendur verða bannaðir á íþróttaviðburðum að nýju. Einnig er útlit fyrir að leikhús þurfi að loka aftur. 

Sex manna reglan mun leyfa fólki frá mismunandi heimilum að halda áfram að hittast í litlum hópum utandyra í almenningsgörðum, á leikvöllum og á íþróttaleikvöngum sem eru utan dyra. 

Fyrr í dag var þingmönnum greint frá versnandi stöðu vegna Covid-19 í höfuðborginni. Einn þingmaður sagði að þingmenn væru orðnir mjög pirraðir vegna þess að þeir fengju engin raunveruleg svör við spurningum sínum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert