Fyrstu jólin með kórónuveirunni eru í vændum og ljóst er að víðast hvar verða þau nokkuð frábrugðin þeim jólum sem fólk á að venjast. Hver ríkisstjórnin á fætur annarri hefur hvatt borgara sína til að gæta að sér í von um að koma í veg fyrir aðra bylgju faraldursins.
Í Þýskalandi hefur kanslarinn Angela Merkel varað landa sína við því að umgangast marga, ef ske kynni að jólin „verði þau síðustu með ömmu og afa“.
Og þær eru fleiri, fórnirnar sem hún biður fólk að færa. Þjóðverjar hafa vinsamlega verið beðnir um að sleppa því að neyta víns og vaffla á jólamörkuðunum vinsælu þar í landi.
„Ég er sá sem stelur jólunum til að halda ykkur öruggum,“ sagði Brian Pallister, forsætisráðherra Manitoba, í ávarpi nýlega þar sem hann bað fólk að halda sig heima á jólunum.
„Ef þú heldur ekki að Covid sé raunverulegt núna, þá ertu vitleysingur,“ bætti hann við.
Tedros Adhanom Ghebreyesus, framkvæmdastjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, hefur sagt að besta jólagjöfin sem fólk geti gefið sé heilsan sjálf.
Stjórnvöld í Belgíu og Lúxemborg þykja hafa tekið einna ströngustu afstöðuna. Hafa þau beðið borgara sína um að takmarka jólahald við einn gest á hverju heimili, eða tvo gesti ef um er að ræða fólk sem býr einsamalt.
Í Þýskalandi eiga aðeins nánir fjölskyldumeðlimir að koma saman, og þá aðeins ef fólk hefur takmarkað samskipti við aðra í viku þar á undan.
Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna hefur gefið það út að „öruggasta leiðin til að fagna er að fagna heima með fólkinu sem býr með þér“. Stofnunin hefur einnig biðlað til fólks um að ferðast ekki.
Handan landamæranna, í Quebec, hafa stjórnvöld afturkallað ákvörðun sína um að leyfa fólki að koma saman í fjóra daga yfir hátíðarnar eftir að fjöldi smita tók þar að snaraukast.
Í Frakklandi eiga ekki fleiri en sex fullorðnir að sitja saman til borðs um jólin.
Og í Bretlandi, þar sem 94 ára drottningin mun ekki yfirgefa Windsor-kastala í þetta sinn, mega fjölskyldur koma saman þá og því aðeins að fólkið sé ekki frá fleiri en þremur heimilum.
Á Ítalíu hafa stjórnvöld í raun bannað ferðalög á milli héraða landsins frá 21. desember og fram til 6. janúar. Strangari takmarkanir verða þá í gildi á aðfangadag og jóladag. Á sama tíma verður einnig útgöngubann.
Því er einnig að heilsa í Belgíu og Lúxemborg. Og það verður aðeins að kvöldi aðfangadags jóla sem útgöngubanni í Frakklandi sleppir, en það hefst jafnan klukkan átta að hverju kvöldi.
Ferðalög innan héraða landsins eru þó áfram leyfð.
Jólanæturmessan í Betlehem, þar sem kristnir trúa því að Jesú hafi fæðst, verður haldin án söfnuðar þetta árið.
Miðnæturmessunni í Vatíkaninu í Róm verður einnig hagað öðruvísi til að mæta þeim kröfum sem felast í útgöngubanninu á Ítalíu. Eða svo hefur páfinn kveðið upp.
Grísk stjórnvöld leyfa kirkjum að opna fyrir jól rétttrúnaðarkirkjunnar þann 7. janúar svo lengi sem ekki verða fleiri en níu þar inni í einu. Dómkirkjur mega þó hýsa 25 manns.
Hvað kirkjurnar í Sviss varðar þá hefur hvers kyns söngur verið bannaður.
Hefðbundnir jólamarkaðir hjá nágrönnum þeirra í Austurríki verða heldur ekki þetta árið.
Í Hollandi og Belgíu hafa flugeldasýningar verið bannaðar. Í París og Lundúnum verða heldur engar stórar flugeldasýningar eins og fólk þar á að venjast.
Hinum megin á hnettinum verður flugeldum þó skotið upp að venju, í Sydney í Ástralíu. Landið er enda nánast laust við veiruna.