„Hollandi verður lokað í fimm vikur“

Mark Rutte á meðan á sjónvarpsávarpinu stóð.
Mark Rutte á meðan á sjónvarpsávarpinu stóð. AFP

Hollensk stjórnvöld hafa ákveðið að efna til ströngustu sóttvarnaráðstafana í landinu hingað til. Skólum og verslunum sem ekki þurfa nauðsynlega að vera opnar verður lokað næstu fimm vikurnar.

Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands, greindi frá þessu í dag. Mótmælendur heyrðust flauta og hrópa fyrir utan skrifstofu Rutte á meðan hann flutti sjónvarpsræðu sína.

„Hollandi verður lokað í fimm vikur,“ sagði Rutte. „Við eigum ekki í höggi við venjulega flensu eins og fólkið fyrir aftan okkur heldur,“ bætti hann við og átti við mótmælendurna.

Mótmæli fyrir utan skrifstofu forsætisráðherrans.
Mótmæli fyrir utan skrifstofu forsætisráðherrans. AFP

Allar verslanir, fyrir utan matvöruverslanir og apótek, munu loka frá morgundeginum til 19. janúar. Skólum verður lokað á miðvikudag.

Fólki er ráðlagt að halda sig heima við og það má í mesta lagi fá til sín tvo gesti á dag, nema á jóladag þegar það má taka á móti þremur gestum, sagði Rutte.

Söfnum, dýragörðum, kvikmyndahúsum og líkamsræktarstöðvum verður einnig lokað.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert