Konungurinn telur að Svíum hafi mistekist

Karl Gústaf Svíakonungur.
Karl Gústaf Svíakonungur. AFP

Karl Gústaf Svíakonungur lýsir árinu 2020 sem hræðilegu ári. Hann telur að Svíum hafi mistekist að standa vörð um mannslíf í kórónuveirufaraldrinum. 

„Ég tel að okkur hafi mistekist. Hér hefur mikill fjöldi fallið frá og það er hræðilegt. Við þjáumst öll vegna þessa,“ segir Karl í sjónvarpsþættinum Árið með konungsfjölskyldunni. Brot úr þættinum hefur verið birt. 

Fleiri en 7.000 hafa fallið frá úr Covid-19 í Svíþjóð og hafa margir ekki fengið tækifæri til að kveðja ástvini sína. Það segir konungurinn að hann harmi djúpt. 

„Sænska þjóðin hefur þurft að þjást gríðarlega við erfiðar aðstæður,“ segir Karl og heldur áfram:

„Maður hugsar til allra fjölskyldnanna sem hafa ekki getað kvatt ástvini sína. Ég held að það sé þung og hræðileg reynsla að geta ekki kvatt almennilega.“

Spurður að því hvort hann sé hræddur við að smitast af Covid-19 segir Karl:

„Upp á síðkastið hefur það orðið áþreifanlegri hætta, hún hefur færst nær og nær. Það er ekki eitthvað sem maður óskar sér.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert