Hungursneyð í Norður-Kóreu?

Kim Jong-un hefur áður lýst yfir áhyggjum vegna veirufaraldursins.
Kim Jong-un hefur áður lýst yfir áhyggjum vegna veirufaraldursins. AFP

Blikur eru á lofti í Norður-Kóreu þar sem yfirvöld hafa að undanförnu lagt kapp á að auglýsa ágæti kartaflna og jafnvel skipt hvítum hrísgrjónum og hveiti út fyrir kartöflur í matreiðsluþáttum þar í landi.

Sérfræðingar hafa bent á að kartöfludýrkunin sé merki um að hungursneyð í landinu sé yfirvofandi, að því er fram kemur í umfjöllun BBC um málið.

Bíómyndir um ágæti kartaflna eru endursýndar í ríkissjónvarpinu, t.d. kvikmyndin Á hinu heilaga landi frá árinu 2010, og lög um kartöflur eru aftur komin í spilun – má í því samhengi nefna lagið Kartöflustolt.

Áróður um kartöflur í Norður-Kóreu er ekki nýr af nálinni, að sögn Tatiönu Gabroussenki, prófessors í Norður-Kóreufræðum, þar sem sagan hefur sýnt að kartöflur merki erfiða tíma á meðan hvít hrísgrjón virðast benda til hagsældar. Kim Jong-il lýsti yfir kartöflubyltingu árið 1990, þegar hungursneyð reið yfir landið og rennir það frekari stoðum undir kenninguna. 

Vegna takmarkana í ljósi faraldursins, veðurhamfara og viðskiptaþvingana sem ríkið hefur verið beitt bendir allt til þess að illa ári hjá Norður-Kóreu um þessar mundir, en Kim Jong-un hefur áður lýst áhyggjum vegna ástandsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka