Gustave Perna hershöfðingi sem fer fyrir bóluefnadreifingu hjá bandarískum stjórnvöldum hefur beðist afsökunar á því að hafa lofað ríkjum Bandaríkjanna stærri skammti af bóluefni en raun varð.
Á annan tug ríkja Bandaríkjanna hafa varað við því að minna bærist af bóluefni Pfizer og BioNtech í næstu viku en hafði upphaflega verið lofað. Perna segist hafa gert mistök þegar hann áætlaði fjölda þeirra skammta sem tilbúnir voru til afhendingar.
„Ég er sá sem samþykkti skjalið með spám um fjölda skammta. Ég samþykkti útdeilinguna,“ sagði hann og bætti við að engin vandamál væru í framleiðslu efnisins, hvorki bóluefnis Pfizer né Moderna.
Pfizer sendi frá sér yfirlýsingu fyrir helgi þar sem fram kom að engin vandræði hefðu komið upp við framleiðslu eða dreifingu á bóluefninu. Hafa Íslendingar síðar brotið heilann um hvort sú yfirlýsing eigi aðeins við um Bandaríkjamarkað eða megi yfirfæra á stöðuna á Íslandi.