Joe Biden kjörinn forseti Bandaríkjanna var í dag bólusettur fyrir kórónuveirunni. Biden fékk bóluefni frá Pfizer á spítalanum ChristianaCare í Delaware.
Bólusetningar hófust í Bandaríkjunum fyrir viku síðan eftir að lyfjaeftirlit landsins samþykktu bóluefni Pfizer og Moderna. Dr. Jill Biden, verðandi forsetafrú Bandaríkjanna, var einnig bólusett fyrr í dag.
Bóluefni Pfizer er gefið í tveimur skömmtum með nokkurra vikna millibili. Ekki liggur fyrir hvenær Biden fær seinni skammt bóluefnisins.
Kamala Harris, verðandi varaforseti Bandaríkjanna, og eiginmaður hennar Doug Emhoff verða bólusett í næstu viku.