Gengi sterlingspunds hefur fallið mikið og eins hafa hlutabréf í bresku kauphöllinni tekið dýfu í morgun. Fram kemur í umfjöllun Sky News að þessar miklu sveiflur koma í kjölfar yfirlýsinga fleiri ríkja í Evrópu um að þau myndu loka á flug frá Bretlandi eftir að nýtt stökkbreytt afbrigði kórónuveirunnar greindist í landinu.
Sterlingspundið féll meira en þrjú prósent gegn bandaríkjadal í morgun og stendur í innan við 1,32 dali. Þá féll gengi pundsins um tvö prósent gagnvart evru og er nú í 1,08 evrum.
Þá hefur gengi hlutabréfa í kauphöllinni í London fallið um 3% í morgun. FTSE 100 vísitala kauphallarinnar féll um 200 stig eða um 3,2%. Sömu sögu er að segja af öðrum vísitölum og hefur FTSE 250 fallið um 3,5% og FTSE 350 um 3%.
Mesta skellinn í morgun fengu flugfélögin og lækkaði gengi bréfa International Airlines Group, móðufélags British Airways, um 19% og EasyJeat um 15%. Jafnframt féll gengi bréfa Rolls-Royce um 12%, en félagið framleiðir meðal annars flugvélahreyfla.
Einnig hefur virði bréfa í bönkum lækkað og tóku hlutabréf Lloyds Banking Group og Barclays dýfu. Auk þess féllu bréf dagvöruverslunarrisans Associated British Foods og verslunarmiðstöðvareigendans Hammerson.
Lækkanir hafa einnig átt sér stað á meginlandinu í morgun og varð lækkun á frönsku CAC vísitölunni um 3,4%, 3,5% lækkun varð á þýsku DAX vísitölunni og nam lækkunin 3,1% í ítölsku kauphöllinni.
Eins hefur heimsmarkaðsverð á olíu lækkað um þrjá bandaríkjadali á tunnu og stendur hún nú í 49 bandaríkjadölum.