Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur náðað fleiri samherja sína, þar á meðal Charles Kushner, Paul Manafort og Roger Stone.
Kushner, sem er faðir tengdasonar forsetans, Jareds Kushners, játaði fyrir dómi að hafa svikið undan skatti og haft afskipti af vitni árið 2004.
Manafort er fyrrverandi kosningastjóri Trumps og Roger Stones var ráðgjafi hans til langs tíma.
You truly did “Make America Great Again.” God Bless you & your family. I wish you a Merry Christmas & many good wishes for the coming years.
— Paul Manafort (@PaulManafort) December 24, 2020
Mennirnir þrír eru á meðal 26 manns sem forsetinn náðaði, auk þess sem dómar voru mildaðir hjá þremur til viðbótar.
Áður hafði Trump náðað 15 manns og mildað dóma hjá fimm til viðbótar, þar á meðal spilltum þingmönnum Repúblikanaflokksins og öryggisvörðum sem voru dæmdir fyrir að drepa 14 íraska borgara í Bagdad árið 2007.
Trump, sem hefur verið gagnrýndur fyrir að náða samherja sína, lætur af störfum í næsta mánuði og demókratinn Joe Biden tekur við.
Manafort, 71 árs, var dæmdur í sjö og hálfs árs fangelsi í fyrra. Hann var sakfelldur fyrir skatta- og efnahagsbrot, fyrir að hafa leynt tekjum upp á milljónir bandaríkjadala sem hann fékk fyrir pólitísk ráðgjafarstörf í Úkraínu og fyrir ólöglegan áróður.