Bóluefni Pfizer og BioNTech gegn kórónuveirunni barst til allra aðildarríkja Evrópusambandsins í gær. Í dag hefst sameiginlegt bólusetningarátak sambandsins.
Þýskaland, Slóvakía og Ungverjaland hófu bólusetningu strax í gær þegar bóluefnið barst. Evrópusambandsríkin auk Noregs fengu hvert um sig tæplega 10.000 skammta bóluefnis í gær. Sambandið hefur tryggt sér yfir tvo milljarða skammta af bóluefni frá nokkrum framleiðendum, en íbúar innan Evrópusambandsins eru tæplega 450 milljónir.
Í Frakklandi verða íbúar tveggja hjúkrunarheimila í úthverfi Parísar bólusett í dag. Frakkar hafa valið að setja aldraða og einstaklinga með undirliggjandi sjúkdóma í forgang í bólusetningu, en með því er vonast til þess að álag á heilbrigðiskerfið minnki.
Bólusetningar eru einnig hafnar í Kína, Rússlandi, Kanada, Bandaríkjunum, Sviss, Serbíu, Singapúr, Sádi-Arabíu og Bretlandi.