Bólusetning hafin innan Evrópusambandsins

Bólusetning er hafin innan Evrópusambandsins.
Bólusetning er hafin innan Evrópusambandsins. AFP

Bóluefni Pfizer og BioNTech gegn kórónuveirunni barst til allra aðildarríkja Evrópusambandsins í gær. Í dag hefst sameiginlegt bólusetningarátak sambandsins. 

Þýskaland, Slóvakía og Ungverjaland hófu bólusetningu strax í gær þegar bóluefnið barst. Evrópusambandsríkin auk Noregs fengu hvert um sig tæplega 10.000 skammta bóluefnis í gær. Sambandið hefur tryggt sér yfir tvo milljarða skammta af bóluefni frá nokkrum framleiðendum, en íbúar innan Evrópusambandsins eru tæplega 450 milljónir. 

Upphaf bólusetningarátaksins er fyrst og fremst táknrænt, en líklega mun það taka fleiri mánuði að bólusetja nógu marga svo að hjarðónæmi geti myndast innan Evrópu. 
AFP
96 ára íbúi á hjúkrunarheimili var fyrsta manneskjan sem bólusett var á Spáni í beinni útsendingu. Á Ítalíu var það 29 ára hjúkrunarfræðingur, Claudia Alivernini, sem var fyrst bólusett fyrir Covid-19. 

Í Frakklandi verða íbúar tveggja hjúkrunarheimila í úthverfi Parísar bólusett í dag. Frakkar hafa valið að setja aldraða og einstaklinga með undirliggjandi sjúkdóma í forgang í bólusetningu, en með því er vonast til þess að álag á heilbrigðiskerfið minnki. 

Bólusetningar eru einnig hafnar í Kína, Rússlandi, Kanada, Bandaríkjunum, Sviss, Serbíu, Singapúr, Sádi-Arabíu og Bretlandi. 

AFP



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka