Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur samþykkt frumvarp til aðstoðar þjóðinni í kórónuveirufaraldrinum sem lagt var fyrir hann á þriðjudag. Um er að ræða löggjöf sem kveður á um aðgerðir til að aðstoða fólk og fyrirtæki í landinu í þrengingum vegna veirunnar.
Frumvarpið inniheldur neyðarpakka sem m.a. veitir öllum Bandaríkjamönnum, sem þéna minna en 75.000 bandaríkjadali (um 9,6 milljónir króna) á ári, 600 dala eingreiðslu (77.000 krónur) úr ríkissjóði. Alls er neyðarpakkinn metinn á 900 milljarða dala.
Pakkinn felur í sér beinar greiðslur til margra Bandaríkjamanna og fyrirtækja, auk þess sem fjármagnið verður nýtt í verkefni í þágu atvinnulausra.
Lögin voru samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta í síðustu viku bæði í öldungadeildinni og fulltrúadeildinni.