Fjögur tilfelli af „breska“ afbrigði kórónuveirunnar hafa greinst í Grikklandi. Öll smitin greindust meðal einstaklinga sem nýlega höfðu dvalið í Bretlandi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá heilbrigðisyfirvöldum í Grikklandi.
Nýja afbrigði veirunnar greindist fyrst í Bretlandi, en talið er að það sé allt 70% meira smitandi en veiran var í upphafi heimsfaraldurs. Þá hefur nýtt afbrigði sömuleiðis verið greint í S-Afríku, en það er einnig talið mjög smitandi.
„Fjórir einstaklingar sem nýlega ferðuðust til Grikklands frá Bretlandi hafa greinst með afbrigðið. Þeir eru nú í einangrun,“ var haft eftir aðila innan heilbrigðisráðuneytisins. Umræddur heimildarmaður vildi ekki láta nafn síns getið að því er fram kemur í umfjöllun Reuters.
Takmarkanir í Grikklandi hafa verið hertar umtalsvert frá og með deginum í dag. Hárgreiðslustofum og bókaverslunum hefur m.a. verið gert að loka. Bólusetningar hófust í landinu í síðustu viku, en alls hafa 140.099 tilfelli greinst í landinu.