Á morgun, 5. janúar, ganga kosningabærir íbúar Georgíuríkis í Bandaríkjunum til kosninga. Þrátt fyrir að hafa kosið sér forseta í nóvember sl. sem og til beggja deilda þingsins þarf að kjósa aftur til öldungadeildarinnar.
Það er vegna þess að engum frambjóðenda til öldungadeildar þingsins tókst að hljóta yfir 50% atkvæða. Um tvö öldungadeildarsæti er að ræða; annars vegar er komið að kosningu um annað sætið, hins vegar er kosið um sæti öldungadeildarþingmannsins og repúblíkanans Johnny Isakson sem sagði af sér þingmennsku í desember 2019 af heilsufarsástæðum.
Í reglulegu kosningunni keppast David Perdue, sitjandi þingmaður fyrir repúblíkana, og Jon Ossoff demókrati. Í auka kosningunum keppast Kelly Loeffler sem tók tímabundið við sæti Isaksons og hefur setið á þingi í ár fyrir repúblíkana og Raphael Warnock, prestur og frambjóðandi demókrata.
Úrslit kosninganna skipta forsetatíð Joe Bidens miklu máli. Eins og stendur hafa repúblíkanar meirihluta í öldungadeild þingsins næsta kjörtímabil, þ.e. hafa 50 af 100 sætum en demókratar 48. Takist demókrötum að sigra bæði sætin verður fjöldi þingmanna í deildinni jafn. Komi til þess ræður atkvæði varaforsetans, sem verður Kamala Harris, úrslitum í atkvæðagreiðslu.
Repúblíkanar þurfa einungis að vinna annað sætanna í Georgíu til að halda meirihluta í öldungadeildinni.
Stjórnmálaspekingar segja á brattan að sækja fyrir demókrata. Fyrri hluta 20. aldar var Georgía hliðholl demókrötum, en þegar Barry Goldwater forseta frambjóðandi repúblíkana í forsetakosningunum 1964 bar sigur úr bítum í ríkinu gegn John F. Kennedy, þá losnaði tangarhald demókrata. Í dag er ríkið talið sem eitt af sveifluríkjunum (e. Swing States), því erfitt sjá fyrir um úrslit, þrátt fyrir að Joe Biden hafi vissulega sigrað ríkið í nýafstöðnum fosetakosningum.
Ef demókrötum tekst ekki að vinna bæði sætin mun sitjandi forseti vera demókrati, meirihluti fulltrúadeildarinnar tilheyra demókrötum en öldungadeildin vera að meirihluta rauð. Það þýðir að repúblíkanar gætu stöðvað hverja lagabreytinguna á fætur annarri, kjósi þeir það, eða að semja þurfi um innihald frumvarpa til þess að þeim verðir greidd atkvæði.
Mitch McConnell er leiðtogi repúblíkana í öldungadeildinni og stjórnar þar sem meirihluta þingmannanna. Hann er þekktur fyrir að vera harður í horn að taka og stöðvaði eða tafði á sínum tíma fjölmörg mál sem stjórn Baracks Obama lagði fyrir þingið.
Það er því til mikils að vinna fyrir demókrata ætli þeir að uppfylla fjölmörg kosningaloforð sem gefin voru fyrir kosningarnar í nóvember, til dæmis um róttækar breytingar í umhverfis- og skattamálum.