Lok, lok og læs og allt í stáli

Bretum verður gert að halda sig heima, skólum hefur verið lokað og aðeins heimilt að yfirgefa heimilið til þess að hreyfa sig og kaupa inn nauðsynjar. Nýjar sóttvarnareglur sem tóku gildi í Skotlandi á miðnætti og Englandi á miðnætti í kvöld munu gilda í töluverðan tíma, jafnvel fram í miðjan febrúar. Aðgerðirnar nú eru sambærilegar þeim sem giltu í febrúar og mars í Bretlandi.

Tilkynnt var um hertar reglur í gær, sama dag og Bretar hófu almenna bólusetningu með bóluefni frá Oxford-AstraZeneca. 

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, kynnti nýjar og hertar reglur í beinni útsendingu í gærkvöldi. Þær eru settar til að reyna að hefta fjölgun nýrra smita og um leið nýtt afbrigði veirunnar sem virðist smitast hraðar en fyrri afbrigði.

Johnson segir að á sama tíma og stór hluti Breta búi við gríðarlega harðar reglur sé ljóst að þjóðin verði að gera meira. Í sameiningu verði hún að ná stjórn á nýju afbrigði veirunnar á sama tíma og bólusett er fyrir Covid-19. 

Aukinn þrýstingur er á Lyfjastofnun Evrópu um að flýta samþykki á markaðsleyfum fyrir bóluefni við Covid-19. Ekkert varð af því að bóluefni Moderna yrði samþykkt í gær og stofnunin hefur lýst því yfir að ólíklegt sé að bóluefni AstraZeneca fái markaðsleyfi í janúar.

85 milljónir smita 

Fastlega er gert ráð fyrir að Angela Merkel, kanslari Þýskalands, og leiðtogar þýsku sambandsríkjanna muni í dag tilkynna um að núverandi sóttvarnaaðgerðir muni gilda áfram. Þar í landi hefur lítið dregið úr andlátum af völdum veirunnar yfir hátíðirnar þrátt fyrir harðar sóttvarnareglur.

Þar sem geymsla á bóluefni Oxford-AstraZeneca er mun einfaldari en á bóluefnum Pfizer-BioNTech og Moderna eru bundnar miklar vonir við það, ekki síst meðal fátækari ríkja heims í baráttunni við Covid-19. Alls hafa verið staðfest 85 milljónir smita í heiminum og af þeim eru 1,8 milljónir látnar svo vitað sé. Mexíkó fylgdi í fótspor Indlands í gær með því að veita bráðaleyfi fyrir bóluefni Oxford-AstraZeneca.

Virka bóluefnin á nýtt afbrigði?

Nýtt afbrigði Covid-19 sem hefur greinst víða í heiminum en greindist fyrst svo vitað sé í Bretlandi veldur miklum áhyggjum, ekki síst vegna þess að ekki er vitað með fullvissu hver virkni bóluefna er gagnvart því. Stjórnendur BioNTech hafa sagt að ef virknin er ekki til staðar þá sé einfalt mál að koma með nýtt bóluefni, það taki ekki nema sex vikur. Í gær greindu stjórnendur kínverska lyfjafyrirtækisins Sinopharm frá því að bóluefni fyrirtækisins dygði á nýja afbrigðið en klínískar rannsóknir sýna að bóluefni Sinopharm er með 79% virkni. 

Í Bandaríkjunum, þar sem smitin eru flest og eins dauðsföllin, hefur bólusetning tafist. Meðal annars vegna tafa við skipulag og mikils álags á sjúkrahús og heilsugæslustöðvar.

Stjórnvöld þar standa einnig frammi fyrir áhrifum samsæriskenninga sem er dreift á samfélagsmiðlum um hættuna sem fylgi bólusetningum. Samkvæmt frétt AFP getur þetta tafið bólusetningar þar sem fólk hiki við að láta bólusetja sig eða hætti jafnvel við.

Eyðilagði hundruð skammta

Þetta hefur þegar haft áhrif því í síðustu viku var greint frá því að lyfjafræðingur í Wisconsin er sakaður um að hafa viljandi eyðilagt hundruð skammta af bóluefni Moderna þar sem hann trúði staðleysu samsæriskenninga. 

Lyfjafræðingurinn í Wisconsin, Steven Brandenburg, kom fyrir dómara í gær og þar sagði hann að hann tryði því að bóluefni við Covid-19 væri ekki öruggt fyrir fólk og það gæti haft skaðlegt áhrif á fólk og breytt erfðaefni þess að því er kemur fram í fréttum bandarískra fjölmiðla. 

Frétt NPR

Fjöldabólusetningar eru taldar besta leiðin til að stöðva útbreiðslu faraldursins sem hefur haft áhrif á daglegt líf nánast allra jarðarbúa undanfarið ár.

Bólu­setn­ing­ar hafa verið al­menn­ar hér á Íslandi í marga ára­tugi og þátt­taka í þeim er mik­il, einkum í bólu­setn­ingu barna. Þetta er mjög mik­il­vægt þar sem far­sótt­um verður ekki haldið í skefj­um nema þorri fólks sé bólu­sett­ur. Brýnt er að bólu­setn­ing­ar barna nái til nær allra barna í hverj­um fæðing­ar­ár­gangi. Með því móti er unnt að mynda svo­nefnt hjarðónæmi gegn skæðum smit­sjúk­dóm­um, sem þýðir að ónæmi gegn þeim verður nægi­lega al­gengt í land­inu til þess að koma í veg fyr­ir út­breiðslu sjúk­dóm­anna, jafn­vel þótt vart verði við ein­stök til­felli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert