Útgöngubann gæti gilt fram í mars

Michael Gove hlýðir á skoskan þingmann í þinghúsi Breta.
Michael Gove hlýðir á skoskan þingmann í þinghúsi Breta. AFP

Stjórnvöld í Englandi segja að útgöngubann sem tilkynnt var í gær og tók gildi í dag gæti varað fram í mars.

Aðgerðunum, sem samsvara algjöru útgöngubanni með ströngum skilyrðum fyrir undanþágum, er ætlað að stemma stigu við mikilli fjölgun tilfella kórónaveirunnar í kjölfar nýs bráðsmitandi stofns og eru til sex vikna til að byrja með.

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, tilkynnti í gærkvöldi ráðstafanirnar þar sem skólum er meðal annars gert að loka og fólki gert að halda sig heima nema til að kaupa nauðsynjar og hreyfa sig.

Erfiðar vikur fram undan 

Michael Gove, ráðherra í ríkisstjórn Johnsons, sagði við Sky News í dag að ekki væri hægt að segja til um nákvæmlega hvenær útgöngubanni yrði aflétt. Hann varaði við því að vikurnar fram undan gætu orðið mjög erfiðar. 

Gove sagði að aðgerðirnar yrðu endurskoðaðar 15. febrúar en engin leið væri fyrir ríkisstjórnina að „spá með nokkurri nákvæmni“ hvort þeim verði aflétt þá.

„Ég tel að það sé rétt að segja að þegar við siglum inn í mars ættum við að geta aflétt einhverjum takmörkunum en ekki endilega öllum,“ sagði Gove.

Sem fyrr segir tóku aðgerðirnar gildi í morgun. Einnig hefur verið gripið til hertra ráðstafana í Skotlandi, Wales og Norður-Írlandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert