Joe Biden verðandi forseti Bandaríkjanna fordæmdi í kvöld óeirðir við þinghús Bandaríkjaþings. Hann sagði framferði mótmælenda vera „uppreisn“ og krafðist þess að Donald Trump Bandaríkjaforseti kalli eftir upplausn óeirðanna.
President-elect Biden addresses the nation: https://t.co/BXM3SZK25R
— Biden-Harris Presidential Transition (@Transition46) January 6, 2021
„Á þessum tímapunkti er lýðræðið okkar að verða fyrir fordæmalausri árás,“ sagði Biden, en hundruð mótmælenda brutu sér leið inn í þinghúsið fyrr í kvöld. Fjölmargir báru skotvopn og þurfti að rýma bygginguna.
„Ég beini orðum mínum til Trump forseta og hvet hann til að fara í sjónvarpið til þess að krefjast endaloka á þessu umsátri. Að brjótast inn í þinghúsið, berja glugga, taka yfir skrifstofur, málstofu Bandaríkjaþings, ógna öryggi réttkjörinna embættismanna? Það eru ekki mótmæli, þetta er uppreisn,“ sagði Biden.