Joe Biden verðandi forseti Bandaríkjanna ávarpaði þjóð sína í kvöld frá Delaware. Biden lýsti atburðum gærdagsins við þinghús Bandaríkjaþings sem „einum af myrkustu dögum í sögu þjóðar okkar“, og sem „árás, bókstaflega, á helgistað frelsisins“.
„Þetta var ekki mótþrói, þetta var ekki óregla. Þetta var óreiða,“ sagði Biden og kallaði múginn sem braust inn í þinghúsið „hryðjuverkamenn“.
„Og ég vildi óska þess að við gætum sagt að þetta hefði komið á óvart. En það er ekki satt. Við sáum hvað var í uppsiglingu,“ sagði Biden. „Síðustu fjögur ár höfum við haft forseta sem hefur gert andúð sína á lýðræði okkar, á stjórnarskrá okkar, á reglum laganna, greinilega.“
Biden sagði svo að múgurinn í gær hefði fengið gjörólík viðbrögð frá lögreglu ef hann hefði ekki verið að mestu leyti hvítur.
„Það getur enginn sagt mér, ef þetta hefði verið hópur af Black Lives Matter-mótmælendum í gær, að þeir hefðu ekki fengið allt öðruvísi viðbrögð frá lögreglu en þessir fantar sem ruddust inn í þinghúsið,“ sagði Biden og bætti við að barnabarn hans hefði sent honum myndir af viðbrögðum lögreglu þegar kynþáttafordómum var mótmælt síðasta sumar.
Biden tilnefndi einnig Merrick Garland formlega sem dómsmálaráðherra í stjórn sinni. Garland er miðjusinnaður dómari sem repúblíkanar höfnuðu sem hæstaréttardómara fyrir fimm árum. Hann starfar í dag sem dómari við áfrýjunardómstól í Washington og er þekktur fyrir að vera hófsamur og frjálslyndur og er ekki flokksbundinn.