Bill Barr, fyrrverandi dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, segir gjörðir fyrrum yfirmanns hans, Donalds Trump, í aðdraganda óeirðanna við þinghús Bandaríkjaþings vera „svik við embætti hans og stuðningsmenn“.
Barr lét af embætti í desember eftir að hafa opinberlega andmælt fullyrðingum Trump um meint kosningasvindl í forsetakosningunum sem fram fóru í nóvember.
„Að hvetja múg til að þrýsta á þingið er óafsakanlegt,“ sagði Barr í yfirlýsingu.
Fyrir forsetakosningarnar var Barr einn af dyggustu stuðningsmönnum Trump. Hann kom meðal annars í veg fyrir stórhneyksli með því að gefa fyrir fram út fjögurra blaðsíðna útdrátt úr rannsókn sérstaks saksóknara Roberts Mueller á samskiptum Trump við yfirvöld í Rússlandi, þar sem gjörðir forsetans voru smækkaðar verulega.