Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, segir að koma verði Donald Trump Bandaríkjaforseta frá völdum þegar í stað. Hún segir hann afar hættulega manneskju.
Trump á þrettán daga eftir í embætti forseta áður en Joe Biden, nýkjörinn forseti, tekur við 20. janúar.
„Um er að ræða neyðartilfell,“ segir Pelosi sem hvetur Mike Pence varaforseta til að virkja ákvæði 25. viðauka stjórnarskrárinnar, degi eftir að þúsundir stuðningsmanna forsetans réðust inn í þinghúsið.
Í viðaukanum er kveðið á um ferli til að koma forsetanum frá völdum ef talið er að hann sé ekki lengur hæfur til að gegna störfum embættisins.
Pelosi segir enn fremur að ef áðurnefnt ákvæði verður ekki virkjað sé þingið tilbúið að kæra hann til embættismissis.