Helmingur allra íbúa öldrunarheimilis í Austur-Sussex lést af völdum Covid-19 yfir hátíðirnar. Óttast er að nýtt afbrigði kórónuveirunnar sem fer eins og eldur í sinu um suðausturhluta Englands sé byrjað að brjóta varnir hjúkrunar- og öldrunarheimila.
Í frétt Guardian kemur fram að 13 af 27 íbúum á Edendale Lodge-öldrunarheimilinu í Crowhurst hafi látist með staðfest eða grun um að vera með Covid-19 síðan 13. desember. Þetta staðfestir framkvæmdastjóri heimilisins, Adam Hutchison, sem einnig rekur öldrunarheimili í Kent.
Jafnframt hefur yfir þriðjungur starfsfólks greinst með smit á sama tíma og íbúar létust um jólin. Síðasta dauðsfallið varð á mánudag. „Þetta voru hræðileg jól og skelfilegt fyrir starfsfólkið,“ segir Hutchison og bætir við að veiran hafi verið óstöðvandi.
Víðs vegar á Englandi er Covid-19 smitum farið að fjölga að nýju eftir tiltölulega smitlitla mánuði. Á þriðjudag bannaði sveitarstjórn Essex allar heimsóknir á öldrunar- og hjúkrunarheimili á svæðinu.
Samband öldrunarheimila í Kent varar við erfiðri stöðu þar sem íbúar hafa látist og starfsfólk er fjarverandi vegna veikinda. Jafnframt séu starfsmenn gjörsamlega búnir á líkama og sál sem hefur áhrif á störf þeirra.
Öldrunarheimilin undrast hvers vegna ekki er byrjað bólusetja íbúa þeirra en Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, greindi frá því á þingi á miðvikudag að hann vildi að sú áætlun færi af stað. Búið sé að bólusetja 10% íbúa og 14% starfsfólks. „Það er greinilega þörf á að bæta í,“ sagði Johnson við þingheim. Byrjað var að bólusetja með AstraZeneca bóluefninu í þessari viku á hjúkrunar- og öldrunarheimilum.
Hutchison segir að einhverjir þeirra sem hafi látist hafi ekki átt marga mánuði ólifaða en aðrir hafi hafi verið við ágæta heilsu áður.