Trump fordæmir árásina

00:00
00:00

Don­ald Trump, frá­far­andi for­seti Banda­ríkj­anna, for­dæmdi árás­ina á þing­hús Banda­ríkj­anna í ávarpi sem hann birti á Twitter nú fyr­ir stundu. Sagði for­set­inn að líkt og all­ir Banda­ríkja­menn sé hon­um mis­boðið vegna of­beld­is­ins og lög­leys­unn­ar sem þar fór fram.

Fjór­ir lét­ust er hóp­ur of­stæk­is­fullra stuðnings­manna Trumps réðst inn í þing­húsið á miðviku­dag til að reyna að stöðva staðfest­ingu demó­krat­ans Joe Bidens sem næsta for­seta Banda­ríkj­anna.

Í ávarp­inu hét Trump því að upp­reisn­ar­segg­irn­ir myndu gjalda fyr­ir gjörðir sín­ar. „Til þeirra sem tóku þátt í of­beldi og eyðilegg­inu: Þið eruð ekki full­trú­ar þjóðar­inn­ar. Og til þeirra sem brutu lög­in: þið munuð gjalda fyr­ir það,“ sagði Trump.

Kvað þar við ann­an tón en í ávarpi for­set­ans í gær, meðan árás­in stóð yfir, en þar sagðist hann skilja reiði og sárs­auka mót­mæl­enda þar sem for­seta­kosn­ing­un­um hefði verið stolið frá hon­um. Sagðist hann elska mót­mæl­end­ur á sama tíma og hann bað þá að fara úr þing­hús­inu. Það mynd­band var einnig birt á Twitter, en í kjöl­farið fjar­lægði sam­fé­lags­miðill­inn mynd­bandið og lokaði reikn­ingi for­set­ans í tólf klukku­stund­ir.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Don­ald Trump, for­seti Banda­ríkj­anna. AFP

Trump hef­ur tjáð sig um lítið annað en meint kosn­inga­s­vindl síðustu vik­ur, en því var ekki að heilsa í ávarp­inu nú. Án þess að staðhæfa neitt um kosn­inga­s­vindl sagði for­set­inn að fram­boð hans hefði reynt all­ar leiðir til að fá úr­slit­um kosn­ing­anna hnekkt. „Mitt eina mark­mið var að verja heil­indi kosn­ing­anna. Því barðist ég svo hægt væri að verja lýðræðið í land­inu.“

Þá sagðist Trump leggja áherslu á friðsæl valda­skipti þegar ný rík­is­stjórn tæki við síðar í janú­ar, án þess þó að nefna Joe Biden, kjör­inn for­seta, á nafn.

Þá hélt hann því fram að hann hefði „um­svifa­laust“ kallað þjóðvarðliðið og al­rík­is­lög­reglu­menn til að tryggja ör­yggi bygg­ing­ar­inn­ar og fjar­lægja inn­rás­ar­menn­ina. Því hef­ur þó verið haldið fram að Trump hafi verið treg­ur til að kalla á liðsstyrk til að fjar­lægja lýðinn, en inn­rás­in stóð í um þrjá klukku­tíma. 

Stuðningsmenn forsetans brjóta sér leið inn í þinghúsið á miðvikudag.
Stuðnings­menn for­set­ans brjóta sér leið inn í þing­húsið á miðviku­dag. AFP

Tveir ráðherr­ar farn­ir

Tveir ráðherr­ar úr rík­is­stjórn Trumps hafa sagt af sér embætti í kjöl­far árás­ar­inn­ar, sem þeir telja for­set­ann bera ábyrgð á með fram­ferði sínu síðustu vik­ur.

Fyrst var Elaine Chao sam­gönguráðherra sem til­kynnt um af­sögn sína, en hún tek­ur þó ekki gildi fyrr en á mánu­dag. Chao er eig­in­kona Mitch McCo­nell, leiðtoga re­públi­kana í öld­unga­deild­inni.

Betsy DeVos mennta­málaráðherra til­kynnti síðan upp­sögn sína á fimmtu­dag. Í upp­sagn­ar­bréfi sínu sagði hún eng­um vafa und­ir­orpið hver áhrif orðræðu for­set­ans voru á „of­beld­is­fulla mót­mæl­end­ur“ sem réðust inn í þing­hús Banda­ríkj­anna á fimmtu­dag.

AFP
mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert