„Notið helvítis hjólreiðastíginn“

Orðaskiptin urðu nokkuð stutt og báðu hjólreiðamennirnir Harris endilega um …
Orðaskiptin urðu nokkuð stutt og báðu hjólreiðamennirnir Harris endilega um að stöðva bifreiðina svo þeir gætu rætt við hann. Skjáskot

Skapillur ástralskur ökumaður kom sér í hann krappan á dögunum þegar hann hugðist ná hefndum á hjólreiðamönnum sem hann taldi vera að brjóta lög.

Raunar endaði það þannig að ökumaðurinn gerðist sjálfur sekur um umferðarlagabrot, og það beint fyrir augum lögreglunnar, því hjólreiðamennirnir voru jú báðir lögregluþjónar. Í þokkabót náðist atvikið allt á myndskeið. Sem ökumaðurinn tók sjálfur.

Ók yfir á stíginn

Atvikið átti sér stað ekki svo langt frá Sydney í Ástralíu. Ökumaðurinn, hinn 27 ára gamli Thomas Harris, var á keyrslu nærri bænum Jamberoo þegar fauk í hann vegna þess að hann þurfti að taka fram úr tveimur hjólreiðamönnum.

Harris hélt nefnilega að hjólreiðamönnum væri skylt að nota stíg sem lá við hlið vegarins, ætlaðan gangandi og hjólandi vegfarendum. Hann greip því til sinna ráða og ók bifreið sinni yfir á stíginn, tók upp símann og ýtti á upptöku áður en hann hóf að ausa fúkyrðum yfir hjólreiðamennina.

Hafði uppi á Harris

Orðaskiptin urðu nokkuð stutt og báðu hjólreiðamennirnir Harris endilega um að stöðva bifreiðina svo þeir gætu rætt við hann. Harris var ekki á því og ók á brott.

Lögreglunni tókst hins vegar að hafa uppi á Harris skömmu síðar, eftir að hann hafði sjálfur deilt myndskeiði af atvikinu á netinu, sem horfa má á hér að neðan. Harris á yfir höfði sér ákæru fyrir að nota símann undir stýri, móðgandi orðanotkun og fyrir að aka á göngustíg.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert