Ódáinsvöllum breytt í garð

Champs-Élysées-ráðið hefur barist fyrir endurskipulagningu breiðgötunnar frá 2018 og segja …
Champs-Élysées-ráðið hefur barist fyrir endurskipulagningu breiðgötunnar frá 2018 og segja hana hafa glatað dýrð sinni síðastliðin 30 ár. Ljósmynd/Unsplash/Rodrigo Kugnharski

Borgarstjóri Parísar hefur tilkynnt að 250 milljónum evra verði varið í að gera Ódáinsvelli, eða Champs-Élysées eins og þeir heita á móðurmálinu, að garði.

Fjallað er um málið á vef Guardian, en þar segir að planið hafi upphaflega verið kynnt af forsvarsfólki borgarbúa og verslunareigenda árið 2019, og feli í sér að gera þessa 1,9 kílómetra löngu leið í París að sérstökum garði.

Yfirgefnir af Parísarbúum

Champs-Élysées-ráðið hefur barist fyrir endurskipulagningu breiðgötunnar frá 2018 og segja hana hafa glatað dýrð sinni síðastliðin 30 ár. Borgarbúar hafi raunar yfirgefið svæðið að mestu.

„Þetta er oft sögð fallegasta breiðgata í heimi, en þau okkar sem starfa hér á degi hverjum erum ekki svo viss um það,“ var haft eftir Jean-Noël Reinhardt, forseta ráðsins, árið 2019. „Champs-Élysées fær fleiri og fleiri gesti og stórar verslunarkeðjur, en Frökkum þykja þeir orðnir fornfálegir.“

Birtingarmynd stórborgarvandræða

Hönnuður breytinganna, sem nú eru skipulagðar, áætlaði, áður en kórónuveirufaraldurinn skall á, að 72% þeirra 100 þúsund gangandi vegfarenda sem ættu leið um vellina væru erlendir ferðamenn og að 22% þeirra störfuðu þar. Þá fara um breiðstrætið, sem hefur fjórar akreinar í hvora átt, um 3.000 farartæki á hverri klukkustund og þar er meiri mengun en frá öllum hringveginum sem liggur í útjaðri borgarinnar.

Þetta var hins vegar ekki alltaf raunin, heldur voru vellirnir upphaflega einstaklega grænir og vinsæll staður til lautarferða meðal borgarbúa. Nú er breiðstrætið hins vegar sagt birtingarmynd þeirra vandamála sem borgir víðast hvar í heiminum glíma við: mengunar, ferðamennsku og neysluhyggju.

Græn svæði stækkuð á kostnað umferðar

Nú stendur þetta hins vegar til bóta. Samkvæmt áætlunum verður akreinum fækkað um helming, eða úr átta í fjórar, og verða grænum svæðum og svæði fyrir gangandi vegfarendur þess í stað stækkuð með það fyrir augum að auka loftgæði.

Yfirhalningunni verður ekki lokið fyrir sumarólympíuleikana sem haldnir verða í borginni árið 2024, en fyrir þann tíma stendur hins vegar til að endurskipuleggja Concorde-torgið, Place de la Concorde. Borgarstjórinn segir þessi verkefni meðal þeirra fjölmörgu sem standa til í borginni fyrir og eftir 2024, en meðal annarra verkefna er að gera svæðið í kring um Eiffel-turninn að stórkostlegum garði í hjarta Parísar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert