Tveir bandarískir þingmenn hafa greinst smitaðir af Covid-19 en annar þeirra hefur sakað repúblikana um að hafa neitað að bera grímur og gert grín að þeim sem þær báru þegar ráðist var inn í þinghúsið í síðustu viku.
Þingkona demókrata, Pramila Jayapal, segir á Twitter að hún hafi farið í sýnatöku eftir að hafa verið lokuð inni í herbergi með fleiri þingmönnum og hún hafi reynst smituð.
Hún segir að margir repúblikanar neiti enn að gæta lágmarksvarúðarráðstafana vegna Covid-19, þar á meðal að bera grímu í yfirfullum herbergjum í miðjum heimsfaraldri. Með þessu hafi þeir skapað mikla smithættu ofan á hryðjuverkaógn.
Hún segir að þau hafi verið lokuð inni í herberinu í nokkrar klukkustundir og nokkrir repúblikanar ekki aðeins neitað að bera grímur þegar þeim voru boðnar þær heldur gert grín að öðrum sem settu þær upp. Bæði starfsfólki þingsins og samstarfsfólki.
Í gærkvöldi greindist þingkona demókrata, Bonnie Watson Coleman, einnig með veiruna og segist hún einnig telja að smitið megi rekja til þess að vera lokuð inni í litlu rými í þinghúsinu á meðan óeirðaseggirnir voru þar.
Yfirlæknir þingsins, Brian Monahan, varaði þingmenn við því um helgina að þeir hefðu væntanlega verið útsettir fyrir veirunni eftir að hafa farið í skjól í einangrunarherbergi á miðvikudaginn.
Nokkrum klukkustundum eftir að stuðningsmenn Trumps ruddust inn í þinghúsið greindist þingmaðurinn Jake LaTurner með smit.
Ekkert land í heimi hefur farið jafn illa út úr kórónuveirufaraldrinum og Bandaríkin en þar eru 375 þúsund látnir af völdum sjúkdómsins og yfirleitt deyja núna um þrjú þúsund einstaklingar þar á dag.