Rannsaka þátt þingmanna í innrásinni

Hópar fólks fengu að skoða þinghúsið daginn fyrir innrásina þrátt …
Hópar fólks fengu að skoða þinghúsið daginn fyrir innrásina þrátt fyrir að slíkt hafi að mestu verið bannað vegna faraldursins. AFP

Lögregluyfirvöld í Washington DC hafa hafið rannsókn tilgangi skoðunarferða sem fóru fram í bandaríska þinghúsinu daginn áður en stuðningsmenn Donalds Trump Bandaríkjaforseta réðust inn í þinghúsið 6. janúar sl. Tugir þingmanna Demókrataflokksins hafa lýst yfir áhyggjum af því að samstarfsmenn þeirra kunni að hafa verið í vitorði með einstaklingum úr innrásarlýðnum.

Upplýsingar um rannsóknina komu í dagljósið fyrr í kvöld eftir að Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, tilkynnti að hún hefði skipað Russel L. Honoré, fyrrverandi liðsforingja í bandaríska hernum, til að leiða rannsókn á öryggismálum í kringum þinghúsið. Talsmaður þinglögreglunnar staðfesti að málið væri til rannsóknar.

AFP

Verða dregnir til ábyrgðar

Pelosi varaði samstarfsmenn sína við því að ef það kæmi á daginn að einhverjir þeirra hefðu átt þátt í undirbúningi innrásarinnar yrðu þeir dregnir til ábyrgðar í samræmi við lög og reglur. Fleiri en 30 þingmenn hafa kallað eftir rannsókn á „grunsamlegum skoðunarferðum“ sem fóru fram í þinghúsinu 5. janúar.

Einhverjir hafa lýst skoðunarferðunum sem könnunarleiðöngrum en skoðunarferðir um þinghúsið hafa verið bannaðar að mestu vegna kórónuveirufaraldursins.

Bandaríska alríkislögreglan FBI hefur að minnsta kosti 37 manns til rannsóknar vegna dauða lögreglumannsins Brian Sicknick en hann lét lífið eftir að slökkvitæki var kastað í höfuðið á honum í innrásinni. Þá hafa lögregluyfirvöld víða um Bandaríkin handtekið fjölda fólks vegna innrásarinnar.

The New York Times

Politico

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert