Bakgrunnur allra þjóðvarðliða verður rannsakaður fyrir embættistöku Joes Bidens á miðvikudaginn til að ganga úr skugga um að öryggis verðandi Bandaríkjaforseta verði gætt.
Hershöfðinginn Daniel Hokanson greindi frá þessu í samtali við CBS News í gær þegar hann var spurður hvort hermenn yrðu rannsakaðir áður en þeir kæmu til Washington.
Eftir óeirðirnar í bandaríska þinghúsinu sjötta janúar, þegar stuðningsmenn Donalds Trumps, fráfarandi Bandaríkjaforseta, ruddust þangað inn, hefur komið fram að einhverjir þeirra sem tóku þátt í þeim tengist eða hafi tengst hernum.
„Leyniþjónustan og FBI [bandaríska alríkislögreglan] munu starfa saman við að rannsaka allan mannskapinn sem er að koma,“ sagði Hokanson.
Mikil öryggisgæsla er í Washington fyrir athöfnina. Stór hluti miðborgarinnar hefur verið lokaður af og öryggisgirðingar verið settar upp. Um 25 þúsund þjóðvarðliðar verða sendir til höfuðborgarinnar.