Þýskt afbrigði greindist hjá 35 sjúklingum

Heilbrigðisstarfsmaður klæddur hlífðarfatnaði. Myndin tengist fréttinni ekki með beinum hætti.
Heilbrigðisstarfsmaður klæddur hlífðarfatnaði. Myndin tengist fréttinni ekki með beinum hætti. AFP

Nýtt afbrigði kórónuveirunnar hefur nú greinst hjá 35 sjúklingum á sjúkrahúsi í bænum Garmisch-Partenkirchen í Bæjaralandi í Þýskalandi. Frekari sýnataka fer nú fram á sjúklingum sjúkrahússins. Ekki er vitað hvort afbrigðið sé meira smitandi en það sem kom faraldrinum af stað til að byrja með. 

Þýski fjölmiðillinn BR24 greinir frá þessu.

Afbrigðið fannst á meðal 35 af 73 smituðum á spítalanum. Sýni úr sjúklingum eru nú greind á Charité háskólasjúkrahúsinu í Berlín, höfuðborg Þýskalands. 

Útlit er fyrir að afbrigðið sé ólíkt þeim afbrigðum sem voru uppgötvuð nýlega og eru kennd við Bretland annars vegar og Suður-Afríku hins vegar. 

Breska afbrigðið er meira smitandi en upphaflega afbrigðið og hið sama má segja um suðurafríska afbrigðið og hið brasilíska. Þau tvö síðarnefndu virðast einnig vera erfiðari viðfangs hvað bólusetningu varðar. 

Ekki skýrt hvort stökkbreytingin sé mikilvæg

Clemens Stockklausner, aðstoðarframkvæmdastjóri Charité háskólasjúkrahússins, sagði á blaðamannafundi í gær að enn væri ekki skýrt hvort afbrigðið væri meira smitandi eða hættulegra heilsu fólks en upphaflega afbrigði verirunnar. 

„Sem stendur höfum við uppgötvað smávægilega stökkbreytingu og það er alls ekki skýrt hvort hún sé mikilvæg læknisfræðilega. Við þurfum að bíða eftir frekari rannsóknum,“ sagði Stockklausner. 

Ekki hefur verið sýnt fram á að breska og suðurafríska afbrigðið séu banvænni en upphaflega afbrigðið. Þrátt fyrir það hafa líklega fleiri fallið frá úr Covid-19 vegna þeirra, þar sem þau eru meira smitandi og hafa því fleiri en ella veikst, lagst inn á spítala og fallið frá. 

Jens Spahn heilbrigðisráðherra Þýskalands hefur áhyggjur af raðgreiningu þar í …
Jens Spahn heilbrigðisráðherra Þýskalands hefur áhyggjur af raðgreiningu þar í landi. AFP

Raðgreining í Þýskalandi ófullnægjandi

Útbreiðsla breska afbrigðisins hefur verið áberandi í Bretlandi og á Írlandi. Þar hefur hún ollið mikilli fjölgun smita og orðið til þess að sumir spítalar eiga fullt í fangi með að fást við álagið sem orðið hefur vegna veikindanna. 

Upplýsingar um þýska afbrigðið bárust sama dag og Jens Spahn heilbrigðisráðherra Þýskalands sagði að núverandi raðgreining sýna þar í landi væri ekki nægjanleg og úr því þyrfti að bæta. Bæði Bretland og Suður-Afríka eru fræg fyrir umfangsmikið eftirlit og raðgreiningar kórónuveirusýna. 

Heilbrigðisráðuneyti Þýskalands tekur fregnir af stökkbreytingu veirunnar þar í landi mjög alvarlega, að því er fram kemur í yfirlýsingu ráðuneytisins sem það sendi fréttastofu CNBC.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert