Chuck Schumer, forseti öldungadeildar Bandaríkjaþings, hefur staðfest að réttað verði yfir Donald Trump, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, í öldungadeildinni, en ákæra fulltrúadeildarinnar verður send til öldungadeildarinnar á mánudaginn.
Trump var ákærður yrir brot í starfi með því að hvetja til uppreisnar eftir að stuðningsmenn hans æddu inn í þinghúsið 6. janúar.
Schumer sagði í ræðu í dag að hann hefði rætt við Nancy Pelosi, forseta fulltrúadeildarinnar, og hún hefði upplýst hann um að ákæran yrði send milli deildanna á mánudaginn.
Réttarhöld munu fara fram í öldungadeildinni og í kjölfarið verða greidd atkvæði um það hvort Trump verði sakfelldur eða ekki.
Fyrr í dag hafði verið greint frá því að repúblikanar í öldungadeildinni hefðu óskað eftir því við demókrata að fresta réttarhöldunum þangað til í febrúar. Þeir segja að með þessu fái Trump tíma til að undirbúa vörnina.
Sé forseti Bandaríkjanna ákærður fyrir brot í embætti er forseti Hæstaréttar í forsæti í öldungadeildinni. Tvo þriðju hluta atkvæða viðstaddra þarf til að sakfella í slíku máli. Þrisvar sinnum hefur forseti verið ákærður fyrir brot í starfi en sýknaður í öll skiptin.