Biden tekur upp tólið

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna.
Joe Biden, forseti Bandaríkjanna. AFP

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, hringdi í gær í Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada. Var það fyrsta símtal Bidens við erlendan þjóðarleiðtoga frá því hann tók við völdum á miðvikudag.

Samkvæmt upplýsingum frá Hvíta húsinu varði símtalið í um þrjátíu mínútur og ræddu leiðtogarnir meðal annars um að styrkja samvinnu ríkjanna á sviðum efnahagsmála, varnarmála og samskipta á alþjóðasviði.

Þá ræddu þeir kórónuveirufaraldurinn og áhrif hans á samskiptin, en landamæri ríkjanna hafa verið lokuð fyrir „ónauðsynlegum ferðum“ frá því í mars. Í símtalinu lýsti Trudeau yfir vonbirgðum sínum með þá ákvörðun forsetans að afturkalla leyfi fyrir Keystone XL olíuleiðslunni, sem leggja á frá Alberta í Kanada til Nebraska í Bandaríkjunum.

Leiðtogarnir sammæltust einnig um að ræða aftur saman í næsta mánuði, annaðhvort í gegnum síma eða í eigin persónu. 

Í kjölfarið hringdi Biden í Andrés Manuel Lopez Obrador, forseta Mexíkó. Lopez Obrador greinir frá því á Twitter að þeir hafi rætt um innflytjendamál, kórónuveiruna og samstarf ríkjanna og hafi samskipti þeirra verið vinsamleg og einkennst af virðingu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka