Háttsettir troða sér fram fyrir í bólusetningu

Heilbrigðisstarfsmaður í Barcelona fær bólusetningu.
Heilbrigðisstarfsmaður í Barcelona fær bólusetningu. AFP

Miguel Angel Villaroya, æðsti hershöfðingi í spænska hernum, hefur sagt af sér embætti eftir að hafa verið gagnrýndur fyrir að þiggja bóluefni gegn kórónuveirunni þrátt fyrir að hafa ekki verið í skilgreindum forgangshópi.

Hneykslisalda hefur riðið yfir Spán eftir að í ljós kom að ýmsir yfirmenn í hernum og aðrir embættismenn voru bólusettir með skömmtum sem sagðir eru hafa verið ætlaðir heilbrigðisstarfsfólki og öldruðum.

„Ég vildi ekki vera bólusettur“

„Til þess að verja ásýnd hersins hefur Villaroya hershöfðingi tilkynnt um uppsögn sína til varnarmálaráðherrans,“ segir í yfirlýsingu frá hernum. Villaroya, sem er 63 ára gamall, segist aldrei hafa ætlað að misnota forréttindastöðu sína.

Degi áður hafði innanríkisráðherra Spánar rekið undirofursta í hernum sem einnig hafði þegið bólusetningu án þess að eiga rétt á henni. Þá hefur heilbrigðisráðgjafi héraðsstjórnar í Múrsíu á Suðaustur-Spáni sagt af sér fyrir sömu sakir.

Javier Guerreron, heilbrigðisráðgjafi sjálfstjórnarborgarinnar Ceuta sem tilheyrir Spáni en er Afríkumegin Gíbraltarsunds, hefur hins vegar neitað að segja af sér þrátt fyrir að vera borinn sömu sökum. Segist hann ekki hafa brotið neinar reglur. „Ég vildi ekki vera bólusettur,“ segir hann og bætir við að hann kunni ekki vel við bólusetningar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert