Joe Biden Bandaríkjaforseti varaði Vladimir Pútín, forseta Rússlands, við afskiptum af kosningum í fyrsta símtali þeirra eftir að sá fyrrnefndi tók við völdum.
Hvíta húsið greindi frá þessu. Forsetarnir ræddu einnig um mótmæli stjórnarandstæðinga í Rússlandi sem hafa staðið yfir þar í landi, að því er BBC greindi frá.
Í yfirlýsingu frá rússneskum stjórnvöldum var ekki greint frá neinum ágreiningsmálum. Þar sagði að símtalið hafi verið „í anda viðskipta og hreinskilið“.
Báðir leiðtogarnir eru sagðir hafa lýst yfir áhuga á að endurnýja síðasta samning landanna um kjarnorkuvopn.
Biden er sagður hafa tjáð Pútín að hann viti að Rússar hafi reynt að hafa afskipti af forsetakosningunum í Bandaríkjunum árið 2016 og 2020.