Kapteinn Tom Moore, sem nýlega var aðlaður af Elísabetu II Bretlandsdrottningu fyrir framlag hans í faraldrinum, er nú kominn á spítala eftir að hann fékk Covid-19. Moore, sem er orðinn 100 ára gamall, er með lungnabólgu og glímir við öndunarerfiðleika.
Í yfirlýsingu sem dóttir Tom sendi frá sér á Twitter-síðu föður síns kom fram að hann hefði undanfarnar vikur verið með lungnabólgu en hann hefði svo greinst jákvæður fyrir Covid-19 í gær. Hann var fluttur á spítala en er þó ekki á gjörgæslu.
Moore, sem barðist í síðari heimsstyrjöld, varð heimsfrægur í apríl árið 2020 þegar hann byrjaði að safna fé fyrir breska heilbrigðiskerfið með því að ganga yfir garðinn sinn.
Hann safnaði áheitum og gekk 100 ferðir fram og til baka í garðinum heima hjá sér í Bedfordshire í Bretlandi. Upphaflega ætlaði hann að safna eitt þúsund pundum en hafði safnað milljörðum þegar yfir lauk.
Þá varð hann elsti listamaðurinn til að ná á fyrsta sæti á topplista yfir vinsælustu lögin í Bretlandi. Hann og fleiri sungu og gáfu út nýja útgáfu af laginu „You‘ll Never Walk Alone“ til styrktar heilbrigðiskerfinu.
Moore var sæmdur tign heiðursofursta í breska hernum á 100 ára afmæli sínu 30. apríl á síðasta ári og var síðan sleginn til riddara af Bretlandsdrottningu síðasta sumar.