Greiða fyrir opnun landsins með smitum

Mynd frá Dúbaí.
Mynd frá Dúbaí. AFP

Ferðamenn flykktust til Dúbaí í lok síðasta árs og leituðu margir hverjir þangað vegna lítilla takmarkana á daglegu lífi og sólarinnar sem þar skín, en Dúbaí er farið að greiða fyrir gestrisnina með hækkandi smitfjölda og hafa yfirvöld nú gripið til hertra aðgerða.

CNN greinir frá þessu í ítarlegri fréttaskýringu. 

Tugir þúsunda erlendra ferðamanna komu til landsins í árslok 2020 og fór veiran loks að láta á sér kræla í samfélaginu í kjölfarið. Kórónuveirusmitum hefur farið fjölgandi í landinu og eru þau nú um fjórfalt fleiri en í nóvembermánuði. 

Jafnvel þegar Covid-19 hafði náð sterkri fótfestu í Dúbaí máluðu áhrifavaldar á samfélagsmiðlum upp mynd af landinu sem sýndi algjörlega opna sólarparadís, í miðjum faraldri og á miðjum vetri. Myndirnar ollu víða hneykslan og gagnrýni á þá sem nutu sín án takmarkana í sólinni í Dúbaí. 

Staðráðnir í að halda ferðamannaiðnaðnum gangandi

Þrátt fyrir að víða um heim hafi ferðaþjónustan nánast lagst í dvala vegna faraldursins er furstadæmið enn staðráðið í að halda atvinnulífi, sem reiðir sig á ferðaþjónustu, gangandi áfram. Embættismenn í Dúbaí eru margir hverjir ósáttir við umfjöllun sem sýnir þessa viðleitni í slæmu ljósi. 

„Ef við biðjum alla um að breyta hegðun sinni algjörlega er mjög ólíklegt að því verði fylgt að fullu,“ sagði Helal Saeed Al Marri, framkvæmdastjóri ferðamálaráðuneytis Dúbaí, í samtali við CNN. 

„Í okkar  tilviki höfum við beðið fólk um að laga hegðun sína að faraldrinum og læra að lifa í nýjum veruleika.“

Þá sagði Al Marri að hegðun örfárra ferðamanna ætti ekki að sverta orðspor Dúbaí.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka