Laumast inn í lokaðan Noreg

Maðurinn stekkur út úr bifreiðinni og tekur á rás í …
Maðurinn stekkur út úr bifreiðinni og tekur á rás í átt að skóglendi. Vörubifreið sem náði með naumindum að sveigja hjá fólksbílnum fjarlægist á afreininni. Skjáskot/Öryggismyndavél tollgæslunnar

„Þessari bifreið hafði verið vísað frá landamærunum um fimmleytið. Þá óku þeir bara sömu leið til baka til Svíþjóðar og komu svo og gerðu aðra tilraun,“ segir Kjetil Ringseth, aðgerðastjóri austurumdæmis norsku lögreglunnar, við norska ríkisútvarpið NRK um tilraun manns til að lauma sér inn í Noreg nú þegar landamærin eru lokuð öðrum en þeim sem njóta undanþágu.

Það var undir kvöld í gær sem lögregla og tollverðir í tollstöðinni við Svínasund, suður af Ósló, stöðvuðu bifreiðina og báðu ökumann hennar að snúa við þar sem hvorki hann né farþegi í bifreiðinni uppfylltu skilyrði til að komast inn í landið.

Óku þeir á brott en ekki leið á löngu þar til sama bifreið kom inn í sjónsvið einnar margra öryggismyndavéla tollgæslunnar, við E6-brautina í nánd við landamærin, sem notaðar eru til að fylgjast með ökutækjum, einkum vegna smygls.

Staðnæmdist bifreiðin þar við afrein, svo snögglega að vörubifreið fyrir aftan náði með naumindum að sveigja fram hjá, og sést farþeginn greinilega stíga út og hlaupa svo í ofboði frá veginum, upp brekku og inn í skóglendið.

Engin nýlunda

Lögreglan náði sambandi við ökumanninn sem kvað allt á misskilningi byggt, enginn farþegi hefði verið í bifreiðinni. „En við vorum með upptöku af öllu saman,“ segir Ringseth.

Lögreglubifreið með leitarhund kom fljótlega á vettvang og héldu lögreglumenn þegar af stað að leita farþegans horfna með þefskyn dýrsins sem leiðarhnoða. Klukkustundu síðar höfðu þeir hendur í hári mannsins sem mátti þola að vera vísað öðru sinni frá Noregi á innan við tveimur tímum.

„Einnig var mönnunum gert ljóst að við þriðju tilraunina yrðu afleiðingarnar þyngri en brottvísun ein“ segir Ringseth að lokum.

Maðurinn hleypur upp brekkuna beint fyrir framan myndavél tollgæslunnar. Ökumaðurinn …
Maðurinn hleypur upp brekkuna beint fyrir framan myndavél tollgæslunnar. Ökumaðurinn neitaði staðfastlega að nokkur hefði verið með honum í bifreiðinni en sönnunargögnin komu honum í koll. Skjáskot/Símaupptaka af skjá tollgæslu

Wenche Fredriksen, skrifstofustjóri tollgæslunnar við Svínasund, segir það enga nýlundu að fólk reyni að komast undan tolleftirliti við þessa fjölsóttu landamærastöð sem fjöldi Norðmanna fer um þegar ástand heimsmála er eðlilegt, margir til að kaupa mat, áfengi og tóbak Svíþjóðarmegin fyrir um hálfvirði þess sem þessar vörur kosta í Noregi.

„Við sjáum þetta nú þegar landamærin eru lokuð, en höfum líka oft séð það áður,“ segir Fredriksen við NRK, „núna snýst málið um að komast inn í landið án þess að gangast undir veiruskimun og sóttkví.“

Umferðin um landamærin er nánast engin núna eftir lokunina, en fólk með lögheimili í Noregi hefur heimild til að koma inn í landið auk þess sem vöruflutningar eru heimilir og heilbrigðisstarfsfólk fær einnig að fara frjálst ferða sinna. Náin fjölskyldutengsl gera fólki, sem búsett er í öðrum löndum, enn fremur kleift að koma til Noregs.

NRK

ABC Nyheter

TV2

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert