Svissneskar konur fagna því um helgina að 50 ár séu síðan þær fengu kosningarétt. Barátta kvenna fyrir kosningaréttinum reyndist svissneskum konum erfiðari en kynsystrum þeirra annars staðar í Evrópu sem fengu kosningarétt mörgum árum, jafnvel áratugum, fyrr.
Sviss varð þannig eitt af síðustu ríkjum Evrópu sem tók upp kosningarétt kvenna.
Árið 1959 gengu karlmenn til kosninga um kosningarétt kvenna í Sviss. 67% kjósenda sögðu nei og var tillögunni því hafnað. Fréttirnar voru mikil vonbrigði fyrir konur, sérstaklega ungar konur. Í viðtali við BBC segir aðgerðasinni að konur hafi í raun syrgt eftir að niðurstöðurnar voru kunngjörðar.
Röksemdafærslur karlmanna fyrir því að konur ættu ekki að fá að kjósa voru ýmiss konar. Sumum þótti nóg að atkvæði þeirra kæmist til skila í gegnum atkvæði eiginmannsins, öðrum þótti kosningaréttur kvenna „ónáttúra“, enn aðrir sögðu heila kvenna of smáa.
Árið 1971 voru nýjar kosningar boðaðar um sama efni. Þá höfðu konur þrýst mikið á breytingar og samþykktu karlarnir loks kosningarétt kvenna. Í þingkosningum síðar á árinu tóku fyrstu konurnar þingsæti.