Joe Biden Bandaríkjaforseti segir að forvera hans Donald Trump verði ekki veittur aðgangur að sérstökum upplýsingafundum vegna „óútreiknanlegrar hegðunar“ hins síðarnefnda.
Í Bandaríkjunum er löng hefð fyrir því að fyrrverandi forsetar fái upplýsingafundi um viðkvæm málefni, svo sem varnarmál. Biden var í viðtali við CBS spurður hvort til standi að veita Trump slíka upplýsingafundi. „Ég held ekki,“ svaraði Biden og sagði að óútreiknanleg hegðun forsetans fyrrverandi réttlæti það að neita honum um upplýsingafundi.
„Ég held ekki að það sé nokkur þörf á því að hann fái upplýsingafundi,“ sagði forsetinn í fyrsta viðtali sínu sem Bandaríkjaforseti. Biden neitaði að velta því upp hvað hann óttaðist fengi Trump upplýsingar um viðkvæm málefni, en ýjaði þó að því að forsetanum fyrrverandi væri ekki treystandi fyrir leynilegum upplýsingum.
„Hvaða virði væri í því að veita honum upplýsingafundi? Hvaða áhrif hefur hann, annað en að hann gæti misst eitthvað út úr sér?“ sagði Biden.
Samkvæmt New York Times er þetta í fyrsta sinn sem fyrrverandi forseti er ekki upplýstur um stöðu viðkvæmra málaflokka.